Stjórn læknaráðs segir árangur gegn COVID-19 ekki sjálfgefinn

Stjórn læknaráðs Landspítala segir árangurinn sem náðst hefur í baráttunni gegn COVID-19 ekki sjálfgefinn. Mikilvægt sé að gleyma ekki mikilvægi Landspítalans og heilbrigðiskerfisins alls nú þegar fyrsta bylgja faraldursins virðist yfirstaðin. Þetta kemur fram í nýrri ályktun stjórnarinnar sem hún sendi frá sér í dag, 13. maí.

„Efnahagur landsins hefur orðið fyrir áfalli og ljóst er að róðurinn þyngist fyrir ríkissjóð. Mikilvægt er að tryggja nægar fjárveitingar til Landspítalans í framtíðinni því heilbrigði er bæði mannréttindi og góð fjárfesting,“ segir í ályktuninni.

Stjórnin fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur og þakkar ríkisstjórninni og heilbrigðisyfirvöldum. Hún leggur áherslu á að  tryggja þurfi að Landspítali verði í stakk búinn til þess að takast á við næstu bylgjur faraldursins. 

Mynd/ Anna Margrét Halldórsdóttir er starfandi formaður læknaráðs.

 

Svona hljómar ályktunin í heild sinni:

Ályktun stjórnar læknaráðs Landspítala um góðan árangur í baráttu við COVID-19 

Stjórn læknaráðs fagnar þeim góða árangri sem náðst hefur á Íslandi í baráttu við COVID-19 faraldurinn hingað til. Vert er að þakka ríkisstjórn landsins og heilbrigðisyfirvöldum fyrir þeirra þátt og ekki síst þá stefnu að hlíta ráðum sérfræðinga varðandi lykilákvarðanir. Embætti Landlæknis og sóttvarnarlæknis eiga ásamt Almannavörnum þakkir skyldar fyrir faglega handleiðslu og upplýsingagjöf. 

Landspítalinn sýndi hvers hann er megnugur þegar á móti blæs. Starfsemi Landspítalans var umbylt á stuttum tíma og er óhætt að segja að þar hafi náðst góður árangur. Starfsfólk spítalans hefur sýnt mikinn sveigjanleika og dugnað, oft við erfiðar aðstæður. 

Stjórn læknaráðs vekur athygli á því að þessi góði árangur er ekki sjálfgefinn heldur er hann þakkarverður. Jafnframt er mikilvægt að gleyma ekki mikilvægi Landspítalans og heilbrigðiskerfisins alls nú þegar fyrsta bylgja faraldursins virðist yfirstaðin. 

Efnahagur landsins hefur orðið fyrir áfalli og ljóst er að róðurinn þyngist fyrir ríkissjóð. Mikilvægt er að tryggja nægar fjárveitingar til Landspítalans í framtíðinni því heilbrigði er bæði mannréttindi og góð fjárfesting. Sömuleiðis er næsta víst að COVID-19 er ekki úr sögunni og tryggja þarf að Landspítali verði í stakk búinn til þess að takast á við næstu bylgjur faraldursins.