Smit gætu leitt til hópsýkinga - Þórólfur á RÚV

Smitin sem greindust í gær gætu leitt til hópsýkinga og bakslags í faraldrinum hér á landi. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir við fréttastofu RÚV. Sextán voru komnir í sóttkví vegna þriggja búðarþjófa sem handteknir voru á höfuðborgarsvæðinu. Þriggja manna er enn leitað. RÚV segir frá því að mennirnir hafi komið til landsins með flugi á þriðjudag. 

RÚV segir einnig að yfirvöld hefðu mjög líklega náð mönnunum fyrr, hefðu þeir verið skimaðir strax við komuna til landsins.

„Þetta getur náttúrulega þýtt að það geta komið upp einhverjar hópsýkingar. Við vitum það og höfum talað um það allan tímann. Og líka sagt að þessu Covid-máli er ekki lokið. Við erum bara að hefja nýjan kafla,“ segir Þórólfur í viðtali við RÚV.

„Við höfum verið í svolitlu logni núna undanfarið en við vitum að þetta ástand og þessi hætta vofir yfir okkur áfram. Og hún mun gera það klárlega næstu mánuði. Og lærdómurinn af því finnst mér vera í fyrsta lagi  mikilvægi þess að skima á landamærum. Við hefðum náð þessum aðilum mjög líklega fyrr, ef við hefðum skimað þá strax við komu,“ segir Þórólfur við RÚV.

Mynd/Skjáskot/RÚV

Hér má lesa frétt RÚV.