Sjúkrahúslæknar efla starfið í heimsfaraldrinum

„Stefnt er á að efla stéttarvitund lækna og koma á trúnaðarmannakerfi innan félagsins, því mikilvægt er að læknar þekki til og standi saman vörð um réttindi sín,“ segir María I. Gunnbjörnsdóttir, formaður félagsins og yfirlæknir ofnæmislækninga á Landspítalanum. 

Aðalfundur félagsins var haldinn miðvikudaginn 14. október. Samþykktar voru lagabreytingar sem tryggja að fulltrúar félagsins í stjórn Læknafélags Íslands hafi varamenn. Hjörtur Friðrik Hjartarson, varaformaður félagsins, verður varamaður Maríu formanns og Arnar Þór Guðjónsson varamaður aðalfundarkjörins fulltrúa sem kosin var Guðrún Dóra Bjarnadóttir fyrir komandi fund. Nýr ritari félagsins er Theódór Skúli Sigurðsson.

„Fundurinn gekk ágætlega miðað við aðstæður,“ segir María, en hann var haldinn um fjarfundabúnað eins og tíðkast nú í heimsfaraldri kórónuveirunnar. „Umræður voru takmarkaðri fyrir vikið en okkur gekk ágætlega og getum dregið ágætan lærdóm af þessu ferli,“ segir hún. Dögg Pálsdóttir, lögmaður Læknafélagsins, hafi haldið utan um fundarstjórn og séð til þess að dagskránni væri fylgt þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður.

María segir áskoranir stjórnar félags sjúkrahúslækna í vetur helstar að halda uppi starfsemi í félaginu í þessu árferði. „Við sjáum varla fyrir horn og vitum ekki hvað þetta ástand varir lengi.“ Því sé vert að grípa tækifærið og efla innra starf félagsins og styrkja stöðu lækna. 

„Við stöndum nú með nýja stjórn og vinnum í að leggja línurnar fyrir starfsárið. Við ætlum að nýta félagsgjöldin til að ná markmiðum okkar og auka félagsvitund sjúkrahúslækna. Við teljum einnig afar brýnt að koma trúnaðarmannakerfi á,“ segir hún.

Mynd/Læknablaðið

- gag