Sannfærður um réttmæti sænsku leiðarinnar í Covid-19 baráttunni

Johan Giesecke, fyrrum sóttvarnalæknir í Svíþjóð, ver stefnu sænskra yfirvalda í viðtalsþættinum LockdownTV frá UnHerd þann 17. apríl. Eins og fjölmiðlar hafa bent á, og mátti til að mynda lesa í Fréttablaðinu í dag hafa yfir­völd í Svíþjóð verið harð­lega gagn­rýnd fyrir  af­slappað við­horf sitt við veirunni.  Giesecke er sestur í helgan stein en starfar nú í faraldrinum enn sem ráðgjafi sænskra yfirvalda. Hann segir frá því í viðtalinu að hann hafi ráðið þann sem nú gegnir stöðu sóttvarnalæknis í Svíþjóð til starfa í stofuninni. 

Giesecke fer í viðtalinu yfir ástæður þess að aðgerðir gegn kórónuveirunnu eru ólíkar þeim sem sjást í öðrum Evrópulöndum. Hann segir að strax í janúar hafi sænsk heilbrigðisyfirvöld ákveðið að öll skref yrðu tekin á grunni vísinda. Hann segir einu sönnuðu vísindalegu staðreyndina þá að vert sé að þvo hendur sínar í faröldrum. Hún hafi verið þekkt í rúm 150 ár.

„En það eru nær engar sannanir fyrir ágæti annarra ákvarðana, eins og að loka landamærum, loka skólum og halda fjarlægð milli fólks,“ segir hann í viðtalinu.

Hann ræðir hvernig bresk yfirvöld tóku u-beygju í stefnu sinni gegn kórónufaraldrinum í kjölfar skýrslu sem sýndi hvernig draga mætti úr mannfalli með aðgerðum. Hann telur stefnubreytinguna hafa verið til hins verra. Stefna Breta hafi fyrir breytinguna verið sambærileg þeirri Svíar hafi kosið að setja. Breytingin hafi hoggið í trúverðugleika sænsku stefnunnar, sem eigi eftir að sanna sig með tímanum.

Hann sagði að skýrslan hafi miðað við þáverandi afkastagetu sjúkrahúsa landsins. Þau afkasti nú flest mun meiru. „Hér í Svíþjóð hefur hún þrefaldast á gjörgæslum og ég tel að það hafi einnig gerst í Bretlandi.“

Fréttablaðið segir frá því í dag Svíar ætli að taka aðgerðir íslenskra stjórnvalda til sér fyrirmyndar. Þau stefni á að skima almenning fyrir veirunni, bæði veika og einkennalausa. Blaðið vitnar í Johan Giesecke sem segi að slíkar skimanir  gefi upp­lýs­ing­ar um dreif­ingu veirunn­ar í sam­fé­lag­inu. Út frá þeim megi meta hvort sótt­kví hægi á útbreiðslunni.

 Svíþjóð standi þó frammi fyrir því vandamáli að skortur er á sýnatökupinnum. Heimsskortur sé á pinnunum og gæti því reynst erfitt að nálgast fleiri.

Giesecke segir í viðtalinu í þættinum LockdownTV erfitt að snúa út úr þeirri stöðu að halda fólki í útgöngubanni. Tilhneigingin verði að ýta fólki aftur heim aukist andlát þegar þeim verði aflétt í þrepum.

Hann er spurður út í aðgerðir nágrannalandanna í Skandinavíu. Hann hvetur til þess að þeir ræði aftur saman að ári þegar hægt verður að meta hvar árangurinn verði.

Sjá má allt viðtalið hér.

Frétt Fréttablaðsins um að Svíþjóð taki Ísland til fyrirmyndar hér.