Ragnar á síðasta degi á COVID-19 göngudeild Landspítala

Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir á COVID-19 göngudeildinni að Birkiborg, segir frá því á Facebook að dagurinn í dag sé sá síðasti hans sem yfirlæknir á Covid göngudeildinni: „Hvílík rússíbanareið. Magnaðir samstarfsfélagar. Súperteymi. Dugnaður, samhugur og samvinna!“

Hann segir að draga megi lærdóm af þessu tímabili. „Vonandi gerum við það sem mest og sem best!“ Hann sé þakklátur fyrir að hafa fengið að spreyta sig, ásamt góðum hópi fólks, á þessu ótrúlega verkefni.

„Ég hlakka til að snúa heim á almennu lyflækningdeildina með þessa snörpu reynslu í farteskinu og hjálpa til við að efla okkar starfsemi!“

COVID-19 göngudeildin var opnuð í kringum 24. mars síðastliðinn á methraða. Deildin fékk það hlutverk að sinna veirusmituðum og leiðbeina í veikindum sínum. Talið er að hún hafi afstýrt fjölmörgum innlögum á Landspítala. Eftir því sem smituðum hefur fækkað hefur deildin dregið saman seglin og verður hún sameinuð göngudeild almennra lyflækninga eins og lesa má í frétt RÚV.

Ljóst er að COVID-19 heimsfaraldurinn hefur orðið minni áhrif á starfsemi spítalans. Á vef Landspítala færir Ráðgjafarnefnd Landspítala starfsfólkinu öllu þakkir fyrir einstakt starf, einbeitni, dugnað og fórnarlund í þágu samfélagsins í vetrarlok og nú í byrjun sumars.

„Þið starfsfólk spítalans hafið verið í fremstu víglínu í baráttunni við ógnvænlega farsótt, sem herjað hefur á alla heimsbyggðina. Þið hafið hjúkrað, læknað, samglaðst og huggað við einstakar og erfiðar kringumstæður. Þið hafið mörg sett ykkar eigin heilsu í hættu við umönnun smitaðra einstaklinga,“ segir í þakkarorðum þeirra. Í gegnum sterka samheldni hafi fjölmörg flókin verkefni verið snilldarlega af hendi leyst. Starfsfólk spítalans geti með stolti borið störf sín saman við það sem best gerist í öðrum löndum. 

Undir þetta rita Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands og formaður nefndarinnar, Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og varaformaður hennar, Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ. Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, Vilmundur Guðnason, prófessor og forstöðumaður Hjartaverndar, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

„Engum blandast hugur um þá færni, þekkingu og fagmennsku sem einkennt hefur alla framgöngu ykkar á þessum erfiðu tímum. Fyrir allt þetta er þakkað.“

Eins og segir í fréttinni á vef Landspítala er Ráðgjafarnefndinni ætlað að vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um starfsemi, áætlanir og rekstur spítalans. Nefndinni sé jafnframt ætlað að endurspegla viðhorf almennings í landinu til starfseminnar. Þá tali hún máli spítalans gagnvart stjórnvöldum.

Mynd/Læknablaðið/gag