Rafræn skráning á símenntun lækna

Mínerva – rafrænt skráningarkerfi fyrir lækna til að skrá og halda utan um símenntun sína, er nú aðgengilegt á innri vef LÍ, ásamt leiðbeiningum um símenntun sem símenntunarhópur félagsins vann. Næstu mánuðina verður Mínerva í prófun hjá hópi lækna sem buðu sig fram til slíks, en skráningarkerfið er í raun nú opið öllum félagsmönnum sem vilja nota það.

Þegar farið er inn á innri vefinn í fyrsta sinn þarf að skrá sérgrein og vinnustað, en að því loknu birtist innri vefurinn eins og vanalega nema efst í hægra horninu hefur nú bæst við slóð á Mínervu. Þegar smellt er á heitið opnast kerfið og á restin að vera nokkuð augljós. Kerfið er hannað til að vera einfalt í notkun og leiða notandann áfram.

Í Mínervu geta læknar skráð inn og haldið utan um símenntun sína, séð hversu mikil símenntun hefur verið ástunduð á gefnu tímabili og hvort hún uppfyllir lágmarks viðmið sem skilgreint er í leiðbeiningum um símenntun. Hægt er að vista skjöl í Mínervu sem staðfesta símenntunina, sem og kostnað hennar. Ennfremur er í boði að halda dagbók um lærdóminn sem átti sér stað og taka út skýrslur sem gefa yfirsýn yfir ástundaða símenntun. Ef um viðburð er að ræða sem margir sækja, þá skráir einn læknir viðburðinn í kerfið og aðrir skrá þá einungis sína símenntun tengt viðburðinum en ekki viðburðinn sjálfan aftur.

Starfsmaður LÍ er kerfisstjóri Mínervu og getur nálgast þær upplýsingar sem þar eru, m.a. fyrir lækna sem hætt hafa í félaginu og hafa þar með ekki lengur aðgang að kerfinu. Að öðru leiti sér einungis læknir þær upplýsingar sem hann setur inn, nema hann stilli kerfið sérstaklega til að veita öðrum aðgang að grunn upplýsingum um símenntun sína.

Mikilvægi símenntunar er skilgreint í VI meginreglu Codex Ethicus lækna, en með undirskrift þar á skuldbunda þeir sig til að efla lærdóm og þekkingu allan sinn starfsferil. Mínerva auðveldar læknum að halda utan um slíka ástundun.