Ráðherrahroki

Það er gullvæg regla að fara vel með það sem manni er treyst fyrir. Þessa reglu ættu ráðamenn landsins að festa í hjarta sér þegar þeir taka við embættum sínum. Þannig á ráðherra að láta sér annt um málaflokkinn sem honum er trúað fyrir og gera sér grein fyrir ábyrgð sinni, en ekki umvefja sig hroka og tala niður til fólks mæti hann mótbyr í starfi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var sjálfri sér verst á dögunum á fundi með læknaráði, eftir að hafa verið spurð hvaða tillögur hún sæi fyrir sér í sambandi við lausn á neyðarástandi sem ríkir á bráðamóttöku Landspítalans. Hún sagði: „Það er töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala þegar koma ályktanir á færibandi sem tala um að þessi stofnun sé nánast hættuleg.“

Svona eiga ráðherrar ekki að tala. Allavega ekki vilji þeir að þjóðin beri virðingu fyrir þeim. Svandís gefur með orðum sínum sterklega í skyn að nær ómögulegt sé fyrir hana að vera hliðholl spítalanum vegna þess að starfsmenn þar séu stöðugt að kvarta undan slæmu ástandi og aðbúnaði á vinnustaðnum. Hér er um að ræða vinnustað þar sem unnið er með sjúklinga og allt kapp lagt á að hlúa sem best að þeim. Þegar starfsfólk í heilbrigðisstétt notar orðið neyðarástand um ástandið á bráðamóttöku þá missir Svandís sig í tuði um að það sé alltaf verið að segja henni sömu hlutina og koma með sömu ályktanirnar. Hvernig væri að Svandís, í starfi sínu sem heilbrigðisráðherra, færi að leggja við hlustir í stað þess að fyllast mótþróa þegar hún heyrir fullyrðingar sem eru henni ekki að skapi?

Sjá grein Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Fréttablaðinu