Frétt af mbl.is
Læknafélag Íslands (LÍ) mótmælir rýmkun heimilda til lyfjaávísunar. Félagið telur breytingarnar ógna öryggi sjúklinga og krefst fundar með velferðarnefnd Alþingis.
LÍ hefur ítrekað gagnrýnt frumvarp til breytinga á lyfjalögum og lýsir nú yfir eindreginni andstöðu við að aðrir en læknar fái heimild til að ávísa lyfjum. LÍ hefur á fyrri stigum þess gert athugasemdir, bæði skriflega og á fundum með heilbrigðisráðherra.
Í nýrri umsögn LÍ til Alþingis segir m.a. að frumvarpið hafi verið lengi í vinnslu.
„Fyrri drög þessa frumvarps báru þess skýr merki að ríkur vilji virðist vera til þess að fjölga þeim heilbrigðisstéttum sem hafa heimild til að ávísa lyfjum. Gegn því leggst LÍ af fullum þunga. LÍ telur slíka þróun ekki vera í þágu öryggis sjúklinga og telur þvert á móti að öryggi sjúklinga verði beinlínis ógnað með slíkum áformum.
Á fyrri stigum hafa heilbrigðisyfirvöld vegna þessara áforma sinna fullyrt að rýmkun á ávísanarétti til fleiri heilbrigðisstétta en lækna sé til þess fallin að létta undir með læknum. LÍ telur þessa fullyrðingu dapurlega og í versta falli hlægilega. Ávísun lyfja krefst víðtækrar þekkingar í sjúkdómafræði, klínísku mati, klínískri reynslu, þekkingu á sjúkrasögu og lyfjasögu sjúklings,” segir í umsögninni.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Afgreiðslutími
Mánudaga til fimmtudaga 9-16
Föstudaga 9-13