Ólafur Þór kannar geðheilsu landans í heimsfaraldrinum

Um 1.300 manns hafa tekið þátt í könnun Ólafs Þór Ævarsson geðlæknis á andlegri líðan landsmanna nú í heimsfaraldrinum. „Ég tel að niðurstöður geti gefið vísbendingar um líðan fólks,“  segir Ólafur. Gagnaöfluninni lýkur í dag, mánudag. Hann viðurkenndi fyrir helgi að vera rétt farinn að kíkja á línurnar sem nú myndast hratt.

„Ég þori ekki að segja mikið enn sem komið er en sé þó heilt yfir að fólk er duglegt að takast á við ástandið. Fólk er ánægt með viðbrögð yfirvalda, þríeykið okkar.“ Hann segir stinga í augu hve miklu fleiri konur en karlar taki þátt. „En þannig er það oft í rannsóknum af þessu tagi.“ Hann segir einn meginkosta að hægt sé að gera greinarmun í úrlestri gagnanna á hvort fólk sé heima, í vinnu eða í sóttkví. Áhugavert verði að skoða þær niðurstöður. Einnig verði  streitumæling í samhengi við líðan almennt skoðuð.

Ólafur Þór hefur nýtt tímann að undanförnu í að endurskipuleggja starfsemi Streituskólans og Forvarna þar sem hann er framkvæmdastjóri. „Við höfum opnað tvö útibú á landsbyggðinni, annað fyrir norðan og hitt á Vesturlandi. Okkur hefur verið vel tekið,” segir hann og heldur því opnu að vaxa enn frekar. „Ég læt mig dreyma um starfsemi í öllum landsfjórðungum.“

Hann ritaði grein með þeim Sveinbjörgu Júlíu Svavarsdóttur, sérfræðingi í félagsráðgjöf á heilbrigðissviði, og Aldísi Örnu Tryggvadóttur, vottuðum markþjálfa, í Fréttablaðið þann 28. apríl. Þau minntu á að mest hamingja felist í því að eiga í innihaldsríkum samskiptum þar sem virðing, vinsemd og traust séu í forgrunni. Lesa má greinina hér á síðu 11.

Grein Ólafs, Physicians as patients with stress related disorder, birtist í fyrrasumar í norræna geðlækningatímaritinu, The Nordic Journal of Psychiatry. Þar hvetur hann til jafnvægis milli vinnu og einkalífs. Hann samtvinnar gögn og þekkingu og miðlar með skáldaðri sögu um gamlan skólafélaga þar sem fram koma upplýsingar um Sjúklega streitu, einkenni, sjúkdómsgang, viðbrögð og meðferð. Hann segir frá því hvernig félaginn færðist nær og nær kulnun, búinn að skipta öllum gleðistundum út fyrir vinnu, allt einkennandi fyrir streitusamt líferni. Einnig hvernig hann vatt ofan af vinnunni og fagnaði nýrri reynslu og hlutverkum í lífi sínu. 

Greinin er góð áminning um að huga að heilsunni nú á kórónuveirutímum. Lesa má greinina hér á síðu 18. 

Mynd/Læknablaðið