Fæðinga- og kvensjúkdómalæknar segja skýrslu vonbrigði

„Væntingar stjórnar FÍFK voru að skýrsla heilbrigðisráðherra myndi sannarlega vera óháð álit á breytingarferlinum og mikilvægur lærdómur til framtíðar. Það eru vonbrigði að sjá að skýrslan hefur nær eingöngu tekið mið af frásögn framkvæmdaraðilans og skoðar ekki viðhorf notenda, hvorki skjólstæðinga né heilbrigðisstarfsfólks,“ segir í bréfi stjórnar Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) til heilbrigðisráðherra.

Stjórnin segir skýrslu heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini bera þess merki að ekki hafi farið fram skoðun á hvort upplýsingarnar séu réttar eða rætt við notendur ferilsins. „FÍFK gerir einnig athugasemd við að skýrsluhöfundur nefni ekki að það var ekki gert áhættu- og öryggismat á þessum viðamiklu breytingum sem átti að innleiða.“

  • Sjá frétt RÚV um málið hér
  • Sjá frétt mbl.is. hér

Mynd/Læknablaðið

Hér má sjá bréfið í heild sinni.

Reykjavík 16.júní 2021

Til hæstvirts heilbrigðisráðherra Svandísar Svavarsdóttur 

Stjórn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) vill koma á framfæri athugasemdum við skýrslu heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini.

Efnistök skýrslunnar

Í heimildaskrá skýrslunnar eru einungis heimildir frá aðilum sem bera ábyrgð á núverandi starfsemi. Skýrslan ber þess merki að ekki hafi farið fram skoðun á hvort upplýsingarnar séu réttar eða rætt við notendur ferilsins. Í heimildaskrá vantar einnig bæði álit fagráðs. Fagráðið klofnaði og var álit minnihlutans notað, en bæði minni- og meirihluti skiluðu inn áliti. Þegar meta á hvaða upplýsingar voru til staðar fyrir ákvarðanatöku um breytingar á ferlinum verður að teljast sérkennilegt að sleppa áliti fagráðs sem skipað var til að ráðleggja um breytingar á ferlinum áður en þær fóru fram.

Skýrslan tekur ekki afstöðu til bréfa frá fagfélögum rannsóknarlækna og kvensjúkdómalækna til heilbrigðisráðherra, heilsugæslunnar og landlæknis þar sem bent er á ógnir og annmarka á ferlinum. Ekki var haft samband við fagfélögin við vinnslu skýrslunnar.

Öryggi sjúklinga

Fullyrt er í skýrslunni að núna sé biðtími eftir niðurstöðum rannsókna 2-3 mánuðir. FÍFK hefur fylgst með hvenær rannsóknarsvör berast til félagsmanna með því að nota signet transfer sem er excel skjal sem opnað er með rafrænum skilríkjum.

  • 15.apríl bárust sýni frá byrjun janúar og einstaka sýni frá febrúar.
  • 17.maí bárust sýni frá byrjun janúar og fram í lok febrúar.

Það er því ekki rétt að svartími sé 2-3 mánuðir þegar enn hafa ekki borist svör fyrir sýni sem tekin voru fyrir þremur og hálfum mánuði síðan.

FÍFK gerir einnig athugasemd við að skýrsluhöfundur nefni ekki að það var ekki gert áhættu- og öryggismat á þessum viðamiklu breytingum sem átti að innleiða. Skýrsluhöfundur gefur það álit að öryggi í skimun byggist fyrst og fremst á gæðum rannsókna á leghálssýnum. Algjörlega er litið framhjá því að ferillinn í heild þarf að vera öruggur.

Sérstaklega er athugavert að skýrsluhöfundur gerir ekki athugasemd við að beiðni sýnatökuaðila sem sett er inn í íslenskan gagnagrunn skuli ekki vera notuð heldur að beiðnin sem sett er inn í danska gagnagrunninn sé skrifuð af öðrum aðila og fer eftir hvaða númer er á plastpokanum sem sýnaglasið liggur í. Veikasti hlekkur kerfis er yfirfærsla upplýsinga og er ljóst að hér er verið að auka áhættu á mistökum í núverandi kerfi. Það að handvirkt breyta íslenskri kennitölu yfir í danska og aftur tilbaka þegar svar er fært inn í íslenskt kerfi er stór öryggisógn.

Skýrsluhöfundur telur að núverandi kerfi hafi ekki áhrif á aðgengi sérfræðinga að niðurstöðum rannsóknaraðila. Okkur vitandi hafði skýrsluhöfundur ekki samband við neinn utan kerfisins þegar mat var gert á aðgengi.

Upplýsingagjöf

Engin athugasemd er gerð við það af skýrsluhöfundi að upplýsingaflæði frá framkvæmdaraðilum hafi verið stopult bæði til sjúklinga og lækna. Skýrsluhöfundur bendir ekki á mikilvægi öflugrar upplýsingagjafar við breytingar á ferlinum.

Það er flestum ljóst eftir umræður síðustu mánaða að breytingar á ferli leghálsskimunar hafa ekki gengið vel. Væntingar stjórnar FÍFK voru að skýrsla heilbrigðisráðherra myndi sannarlega vera óháð álit á breytingarferlinum og mikilvægur lærdómur til framtíðar. Það eru vonbrigði að sjá að skýrslan hefur nær eingöngu tekið mið af frásögn framkvæmdaraðilans og skoðar ekki viðhorf notenda, hvorki skjólstæðinga né heilbrigðisstarfsfólks.

Fyrir hönd stjórnar FÍFK,

Aðalbjörg Björgvinsdóttir

Formaður FÍFK