Ný reglugerð um menntun lækna

Heilbrigðisráðherra hefur sett nýja reglugerð sem kveður á um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Eldri reglugerð nr. 467/2015 fellur þar með úr gildi. Nýja reglugerðin felur í sér töluverðar breytingar á umgjörð og stjórnskipulagi sérnáms lækna. Einnig hefur fagleg umgjörð sérnámsins verið endurskoðuð og efld með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á sérnámi í læknisfræði hér á landi á liðnum árum. Kröfur til námsins hafa verið skýrðar nánar og hvernig mat á sérnámi fer fram, framvinda, og námslok. Öflugt sérnám lækna er enda mikilvægur þáttur í mönnun heilbrigðiskerfisins til framtíðar. 

Ákvörðun um endurskoðun reglugerðar nr. 467/2015 á sér töluverðan aðdraganda og mikil vinna liggur að baki. Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sem fjallaði um framhaldsmenntun lækna og framtíðarmönnun læknisstarfa í íslenskri heilbrigðisþjónustu lagði m.a. til endurskoðun reglugerðarinnar í skýrslu til ráðherra 2020. Þar var lögð áhersla á að skilgreina nánar umgjörð og regluverk um framhaldsnám í sérgreinum lækninga. Ráðherra skipaði í framhaldi starfshóp um verkefnið með fulltrúum Félags almennra lækna, Landspítala, Læknafélags Íslands, Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu, Háskóla Íslands, Embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins.

Sjá nánar frétt á vef stjórnarráðsins