Læknar samþykkja nýjan kjarasamning við ríkið

Um hádegi í dag lauk atkvæðagreiðslu um nýgerðan kjarasamning fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands, sem samningsaðilar undirrituðu hinn 15. júní sl. Á kjörskrá voru 1294 félagsmenn, þ.e. þeir félagsmenn sem starfa hjá heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur og starfa samkvæmt kjarasamningnum. Alls greiddu 648 læknar atkvæði, eða 50,08% þeirra sem gátu greitt atkvæði.Atkvæði féllu þannig að já sögðu 547 eða 84,41%, nei sögðu 86 eða 13,27% og 15 eða 1,21% tóku ekki afstöðu. Kjarasamningurinn telst því samþykktur og gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024. Þess er að vænta að afturvirkar launabreytingar samkvæmt hinum nýsamþykkta kjarasamningi verði greiddar út um mánaðarmótin júní / júlí nk. Í samninganefnd LÍ í þessum kjaraviðræðum voru: Mikael Smári Mikaelsson formaður, Anton Valur Jónsson, Ingibjörg Kristjánsdóttir, Jóhanna Guðrún Pálmadóttir, Kristinn Logi Hallgrímsson, Oddur Ingimarsson, Ragnheiður Baldursdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Steinunn Þórðardóttir og Súsanna Ástvaldsdóttir. Með nefndinni störfuðu Dögg Pálsdóttir framkvæmdastjóri, Margrét Gunnlaugsdóttir lögfræðingur, Ingvar Freyr Ingvarsson hagfræðingur og Hrönn Pétursdóttir verkefnisstjóri. Stjórn LÍ þakkar félagsmönnum þátttöku í atkvæðagreiðslunni og samninganefnd fyrir mikilvæg störf sín við að koma þessum kjarasamningi í höfn. Þetta er hins vegar stuttur samningur svo vinna samninganefndar til undirbúnings næstu samningalotu mun hefjast strax að loknum sumarleyfum.