Mikilvægt að stéttarfélög séu með í útfærslu álagsgreiðslna

Læknafélag Íslands telur mikilvægt að stéttarfélög komi að því hvernig eigi að útfæra greiðslu á einum milljarði króna sem heilbrigðisráðherra ákvað að verja í sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Læknafélagið er reiðubúið til viðræðna um þessi mál. Það kemur fram í bréfi til heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sem dagsett er 20. maí en stefnt er á að greiðslurnar renni til þeirra sem starfað hafi undir miklu álagi vegna COVID-19 heimsfaraldursins. 

„Læknafélag Íslands (LÍ) tekur mikilvægt að stéttarfélög komi að útfærslu þessara greiðslna. Þá telur LÍ afar mikilvægt að greiðslurnar renni ekki eingöngu til heilbrigðisstarfsmanna stofnana ríkisins heldur einnig til sjálfstæðra heilbrigðisfyrirtækja. Þau hafa lagt sig öll fram á þessum fordæmalausu tímum, ekki síður en þau sem rekin eru af opinberum aðilum og vísar LÍ þar sérstaklega til Læknavaktarinnar í Reykjavík og sjálfstætt rekinna heilsugæslustöðva,“ segir í bréfinu.