Leita 100 lækna til að þróa Mínervu

Símenntunarhópur Læknafélagsins leitar að 100 læknum til að prófa og meta nýjan gagnagrunn sem heldur utan um símenntun íslenskra lækna. Stefnt er að því að grunnurinn, sem kallast Mínerva, verði tilbúinn fyrir alla um áramót.

„Við óskum eftir sjálfboðaliðum,“ segir Hrönn Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá Læknafélaginu. „Þessir 100 læknar verða þeir fyrstu til að fara í grunninn, skrá símenntunina og gefa mat sitt á því hvernig grunnurinn reynist og hvað megi betur fara,“ segir hún. Unnið er að grunninum samkvæmt ákvörðun aðalfundar 2019.

Hrönn segir símenntun ekki þurfa að vera flókna. „Við höfum skilgreint hvað fellur undir símenntun. Margt getur fallið í flokkinn,“ segir hún og nefnir að ekki þurfi alltaf ráðstefnur til endurmenntunar heldur falli einnig það að ráðfæra sig við kollega og lesa fræðigreinar.

En hvert er lágmarksviðmiðið um símenntun?

  • 300 einingar/klst. af símenntun yfir fimm ára tímabil, þar af
  • 200 einingar að lágmarki vegna þátttöku í viðurkenndum námskeiðum, þingum, ráðstefnum og sambærilegu.
  • 100 einingar að lágmarki í persónulegt símenntun, eins og lestur greina, skrif og ritrýni greinar, gerð nýrrar kynningar fyrir viðburð, kennsla, gerð klínískra verkferla, meðferðarleiðbeininga og/eða fræðsluefnis, þátttaka í þróunarverkefnum, CME tengir fundir á vinnustað, jafningjafræðsla innan eða milli vinnustaða, námsdvöl eða starfsþróunarferð.

„Við hvetjum alla lækna að taka þátt,“ segir Hrönn. „Þetta er tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Læknar eru orðnir meðvitaðri um mikilvægi símenntunar. Þessi gagnagrunnur er góð leið til að halda utan um upplýsingarnar.“

Hrönn segir Mínervu einfalda í notkun. „Allir eiga að geta notað grunninn auðveldlega. Við verðum einnig með kynningu á honum og skriflegar leiðbeiningar. Einfaldleiki er markmið okkar.“

Hrönn hvetur alla til að skrá sig til leiks fyrir páska og senda henni póst á netfangið: hronn@lis.is.

„Gefa þarf upp nafn, netfang, faggrein, aldur og vinnustað,“ segir hún. „Við þurfum fjölbreytni í hópinn. Ég er að vona að barist verði um þessi tilraunapláss.“

Hrönn segir að ef allt gangi upp verði Mínerva tilbúin um næstu áramót. „Við ætlum að vera með sex mánaða tilraunatímabil, svo fínpússum við grunninn ef þarf áður en hann kemst í fulla notkun.“

Hrönn segir að í aðdragandanum hafi mörg erlend kerfi fyrir skráningu símenntunar verið skoðuð, í viðleitni til að byggja á reynslu annarra. Heppilegt kerfi hafi þó fundist hér á landi, hjá Félagi íslenskra endurskoðenda. „Ýmsir sem við höfum rætt við eru undrandi að margar stéttir, sérstaklega þær tengdar fjármálastarfsemi, eru með meiri kröfur en læknar þegar kemur að skráningu símenntunar.“

Símenntunarhópinn skipa:

  • Runólfur Pálsson, lyflækningar og nýrnalækningar, formaður
  • Anna Margrét Halldórsdóttir, rannsóknarlækningar
  • Dögg Hauksdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómar
  • Halldóra Jónsdóttir, geðlækningar
  • Jóhann Jónsson, skurðlækningar og líffæraígræðslur
  • Jón Steinar Jónsson, heimilislækningar
  • Tómas Þór Ágústsson, lyflækningar og efnaskiptalækningar, formaður framhaldsmennntunarráðs Landspítala
  • Tryggvi Helgason, barnalækningar
  • Friðbjörn Sigurðsson, tengiliður LÍ við UEMS
  • Hrönn Pétursdóttir, MBA, ráðin sem verkefnastjóri