Landspítalinn er sífellt að slökkva elda

Íslenskt heilbrigðiskerfi hefur verið talið gott enda mannað mjög hæfu fólki.

Íslenskir heilbrigðisstarfsmenn hafa hins vegar ritað greinar á liðnum áratugum um að íslenskt heilbrigðiskerfi gæti verið betra. Embætti landlæknis (EL) hefur gert úttektir á vandamálum Landspítalans nýlega, í desember fyrir ári og síðan eftirfylgniúttekt í september 2019. Þau tvö vandamál sem standa upp úr að mati Landlæknisembættisins eru mikill skortur á hjúkrunarfræðingum sem veigra sér við að vinna á Landspítalanum vegna álags, vinnuaðstæðna og launakjara. Hitt vandamálið sem snertir alla er fáránlegt plássleysi í löngu úreltu húsnæði. Það er sambærilegt við að landslið Íslands í knattspyrnu væri enn að nota Melavöllinn og Laugardagsvöllurinn væri enn þá fjarlægur draumur.

Samkvæmt skýrslu EL þá eru sjúklingar stundum vistaðir í geymslurými eða á salernum. Tæki og tól hafa að stórum hluta ekkert rými og eru því úti um alla ganga. Þrengslin bjóða upp á óheft smit milli sjúklinga. Vinnuaðstaða starfsfólks er mjög þröng og „búningsherbergi“ margra er skápur 30x30 cm.

Staðan er grafalvarleg að mati Landlæknisembættisins því í skýrslunni frá desember 2018 er tekið fram að ekki verði við þetta unað“ þ.e. ástandið á Landspítalanum. Landspítalinn brýtur lög á sjúklingum með aðstöðuleysinu samkvæmt skýrslu EL. Þessi grafalvarlega staða þvingar starfsmenn Landspítalans til að spila úr því sem þeim er skammtað. Það er alls ekki víst að það sé öllum sjúklingum nægjanlegt hvað þá að þeir fái þá þjónustu sem þeim ber og mælt er fyrir í lögum.

Sjá nánar grein Gunnars Skúla Ármannssonar í Fréttablaðinu