Læknar skoða líðan lækna á Landspítala

Læknafélag Íslands og Læknaráð á Landspítala hafa sett af stað könnun á starfsumhverfi og líðan lækna á Landspítala. Umræðan um hvort tveggja hefur verið hávær innan sem utan spítalans undanfarið og því ákváðu LÍ og Læknaráð Landspítalans að fara af stað með könnun meðal lækna til að kortleggja stöðuna nánar, segir í tölvupósti sem hefur verið sendur læknum. Fulltrúar félagsins og Læknaráðs hvetja þar lækna til að taka þátt.

Mikilvægt er að sem flestir taki þátt til þess að fá sem áreiðanlegasta mynd af því hvernig læknar upplifa öryggi og þjónustu við sjúklinga, vægi faglegrar nálgunar, álag í starfi, aðstöðu til kennslu og vísindastarfa ásamt öðrum þáttum.“

Könnunin er með öllu ópersónugreinanleg og niðurstöður hennar verða eingöngu gefnar upp sem hópgögn. Um 5-10 mínútur tekur að svara könnuninni. Við yrðum mjög þakklát ef þið gæfuð ykkur tíma til þess að taka þátt. Eins værum við þakklát ef þið gætuð bent kollegum sem eru í sumarfríi á könnunina, en hún verður opin til miðnættis 7. júlí.

Mynd/Læknablaðið/gag