Læknar sem hætta við námsferðir vegna COVID-19

Í fréttatilkynningu embættis landlæknis hinn 2. mars sl. (sjá: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item39288/bidlad-til-heilbrigdisstarfsmanna-og-annarra-starfsmanna-sem-starfa-vid-vidbunad-vegna-covid-19-um-ad-bida-med-ferdalog-erlendis) var biðlað til heilbrigðisstarfsmanna um að fresta öllum utanlandsferðum eftir því sem kostur væri meðan mál væru að skýrast vegna COVID-19. Fjöldi lækna hefur orðið við þessu og frestað samningsbundnum námsleyfum sem þeir voru búnir að fá samþykki fyrir, skrá sig á og greiða þátttökugjöld, fargjöld og mögulega í einhverjum tilvikum hótelkostnað.

Nú hafa Læknafélagi Íslands (LÍ) borist fyrirspurnir frá nokkrum læknum vegna þess kostnaðar sem þeir hafa þegar lagt út fyrir vegna fyrirhugaðra námsferða, þ.e. þess kostnaðar, sem þeir fá ekki endurgreiddan við afpöntun. Mismunandi er hvaða reglur gilda um afpöntun.

LÍ lítur svo á að sá kostnaður sem læknar fá ekki endurgreiddan vegna þess að þeir hætta við námsferðir vegna tilmæla heilbrigðisyfirvalda hljóti að eiga að lenda á stofnununum, sem læknar starfa hjá. LÍ telur útilokað að þessi kostnaður lendi á læknunum sjálfum.

Um ræðir eins og áður segir um námskeiðskostnað, fargjaldakostnað og hótelkostnað, að því leyti sem þessi kostnaður fæst ekki endurgreiddur við afpöntun. Fyrir liggur að dagpeninga er sjaldnast ef nokkru sinni búið að greiða vegna þessara ferða.

LÍ hefur því í dag ritað bréf til forstjóra heilbrigðisstofnana með afriti til heilbrigðisráðherra og landlæknis þar sem þess er farið á leit að læknum verði tilkynnt að sá kostnaður sem læknar sitja uppi með, af þessari ástæðu, muni verða greiddur af stofnuninni gegn framvísun staðfestingar á þeim kostnaði sem læknar fá ekki endurgreiddan.

Læknar eru beðnir um að hafa samband við LÍ ef þeir fá ekki jákvæð viðbrögð vegna þessa frá stjórnendum stofnunar sinnar.