Læknar með samþykktan kjarasamning

„Ég er ánægð með samninginn,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar lækna. 93% þeirra nærri 70% lækna sem kusu um nýjan kjarasamning sinn samþykktu. Læknar höfðu verið samningslausir í tvö ár. Þetta kemur fram í fyrsta Læknablaði nýs árs.

„Við töldum ekki rétt að læknar myndu draga vagninn í þetta sinn þar sem aðrar stéttir, eins og hjúkrunarfræðingar, börðust fyrir grundvallarbreytingum. Það var því mikilvægt að þær fengju að klára sitt áður en röðin kom að okkur,“ segir Sigurveig Pétursdóttir við Læknablaðið en samninganefndin ritaði undir samning við fjármála- og efnahagsráðherra þann 7. desember.

Atkvæðagreiðslu um samninginn lauk 17. desember. 758 læknar af 1.103 greiddu honum atkvæði sitt. Hann gildir frá 1. mars 2019 til 31. mars 2023.

Sigurveig segir áhersluna í anda lífskjarasamningsins. „Höfuðósk félagsmanna var að hækkunin færi á grunnlaunin og það gerir hún að mestu leyti,“ segir hún í Læknablaðinu.

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins, bendir á í pistli í blaðinu að skrifað hafi verið undir  eftir 22 mánaða samningaþóf. „Samkomulagið felur fyrst og fremst í sér breytingar á grunnlaunum og að stigið var skref til samræmingar við kjarasamning Skurðlæknafélags Íslands ásamt breytingum á orlofskaflanum sem fela meðal annars í sér lengingu orlofs hjá yngri læknum í 30 daga. Á móti koma ákvæði um breytingar á frestun og fyrningu orlofs.“

Hann segir að helsti ávinningur samkomulagsins sé að stigið hafi verið skref hvað varðar launasetningu sérnámslækna. Vonast sé til að það styrki uppbyggingu og áhuga á framhaldsnámi á Íslandi og bæti hag þeirra lækna. „Er það líka í samræmi við stefnu „lífskjarasamkomulagsins“ um áherslu á lægri launaflokkana.“                

Eins og fram kemur í Læknablaðinu er Sigurveig ánægð með samninginn. „En auðvitað vill maður alltaf meira. Við hefðum viljað ýmislegt fyrir ýmsa sérhópa innan læknafélagsins.“ Það kemur einnig fram í pistli Reynis. 

„Það skal ekkert dregið úr því að margt þarf að leiðrétta sem ekki hefur náðst fram í fyrri samningum,“ ritar hann Grunnlaunahækkun skili sér hins vegar til allra og hafi áhrif til hækkunar annarra launaliða samningsins og óskir lækna um aðgerðir til þess til að mynda að draga úr álagi, stytta vinnuvikuna, hækka vaktakaup og endurskoðun frítökuréttar verði skoðaðar í sameiginlegum vinnuhópi. 

„Til að styðja lækna sem taka þátt í þessum vinnuhópum til undirbúnings hefur verið ráðinn verkefnastjóri og er það nýjung í starfsemi og eftirfylgni kjarasamninga LÍ,“ skrifar hann í pistlinum.        

Auk Sigurveigar sátu Björn Gunnarsson, Björn Gunnlaugsson, Dóra Lúðvíksdóttir, Guðrún Ása Björnsdóttir, Oddur Ingimarsson, Ragnheiður Baldursdóttir og Reynir Arngrímsson í samninganefndinni. Einnig Geir Karlsson sem kom inn fyrir Hrönn Garðarsdóttur, Már Kristjánsson og Stefán Þórisson.

Mynd/Læknablaðið/gag