Læknanemar á Landspítala með þungar áhyggjur af stöðunni

Óreyndir læknanemar, og nýútskrifaðir læknar sem hófu störf nú í júní, standa nú á gólfinu án aðgengis að sérfræðilæknum eða reyndari læknum. Ástæðan er bág mönnun á bráðamóttökunni. Læknanemarnir þurfa að bera mál sjúklinga undir þá sérfræðinga sem ábyrgir eru fyrir læknisstörfum þeirra sem nú eru of uppteknir til að ná að sinna þeim. Þetta kemur fram í bréfi tíu læknanema sem nýverið lukum fimmta ári í læknadeild og störfum nú í sumarafleysingum fyrir lækna á bráðamóttöku Landspítala til framkvæmdastjórnar spítalans.

„Þetta er hættulegt ástand og ekki bjóðandi þeim sjúklingum sem leita á bráðamóttökuna með bráð veikindi, né heldur samstarfsfólki okkar eða þeim sérfræðilæknum sem bera ábyrgð á störfum okkar, og að lokum er þetta ekki bjóðandi okkur sjálfum,“ segja læknanemarnir sem hafa þungar áhyggjur af stöðunni.

„Það er okkar mat að nauðsynlegt sé að bregðast við stöðunni þegar í stað til þess að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks.“

Sjá bréfið í heild sinni: 

Ágæta framkvæmdastjórn

Við erum tíu læknanemar sem nýverið lukum fimmta ári í læknadeild og störfum nú í sumarafleysingum fyrir lækna á bráðamóttöku Landspítala. Tilefni þessa bréfs eru þungar áhyggjur okkar af þeirri stöðu sem nú er komin upp á okkar vinnustað.

Eðli málsins samkvæmt þurfa læknanemar að bera mál sjúklinga undir þá sérfræðinga sem ábyrgir eru fyrir læknisstörfum þeirra, hvort sem það snertir fyrstu skoðun, almenna uppvinnslu, bráðameðferð eða frekari áætlanir. Vegna reynsluleysis læknanema þarf sérfræðilæknirinn oft að staðfesta og fá nánari sögu eða skoðun sjúklings, og yfirfara gaumgæfilega vinnu læknanemans.

Nú er uppi fordæmalaus undirmönnun sérfræðinga á bráðamóttöku þar sem mönnun sérfræðinga er 30% lægri en skilgreind neyðarmönnun. Það er nú regla frekar en undantekning að einn sérfræðingur sé ábyrgur fyrir sjúklingum á svæði A, B og C á neðri hæð bráðamóttöku, þar sem vanalega eru tveir til þrír sérfræðingar. Þannig er aðgengi okkar að ábyrgum sérfræðingum fullkomlega óviðunandi en nauðsynleg forsenda þess að læknanemar geti sinnt afleysingastörfum lækna er greitt aðgengi að ábyrgum sérfræðilækni. Við þetta bætist að þegar bráðveikir sjúklingar leita á bráðamóttöku t.d. vegna fjöláverka, krefjast þeir sjúklingar óskiptrar athygli sérfræðinga og reyndustu sérnámslæknanna. Þá stöndum við, óreyndu læknanemarnir, og nýútskrifaðir læknar sem hófu störf nú í júní, einir eftir á gólfinu án aðgengis að sérfræðilæknum eða reyndari læknum.

Það er augljóst að sjúklingar fá ekki fullnægjandi þjónustu í slíkum aðstæðum. Þetta er hættulegt ástand og ekki bjóðandi þeim sjúklingum sem leita á bráðamóttökuna með bráð veikindi, né heldur samstarfsfólki okkar eða þeim sérfræðilæknum sem bera ábyrgð á störfum okkar, og að lokum er þetta ekki bjóðandi okkur sjálfum. Við erum að stíga okkar fyrstu skref á starfsferlinum, við erum óreynd og við erum óörugg í þessum aðstæðum sem þegar hafa skapast. Við erum hrædd um að gerast sek um yfirsjónir sem leiða til ófullnægjandi meðferðar sjúklinga og samsvarandi atvika. Að vera hlutaðeigandi í atviki reynist líklega flestum læknum þungbært, hvað þá læknanema í upphafi starfsferils síns.

Ástandið á bráðamóttöku Landspítala er grafalvarlegt. Við höfum þungar áhyggjur af stöðunni og þá sérstaklega af sjúklingum okkar. Við biðlum til framkvæmdastjórnar Landspítala að gera strax ráðstafanir til að tryggja fullnægjandi mönnun sérfræðinga á bráðamóttöku. Það er okkar mat að nauðsynlegt sé að bregðast við stöðunni þegar í stað til þess að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks.

Með von um góðar undirtektir,

Teitur Ari Theodórsson

Hlíf Samúelsdóttir

Tómas Viðar Sverrisson

Thelma Kristinsdóttir

Guðrún Karlsdóttir

Jón Tómas Jónsson

Daníel Hrafn Magnússon

Rakel Hekla Sigurðardóttir

Karó Hanzen

Rebekka Lísa Þórhallsdóttir