Læknafélagið mótfallið lögleiðingu dánaraðstoðar

Læknafélag Íslands er mótfallið frumvarpi um dánaraðstoð sem nú liggur fyrir Alþingi. Þetta sagði Steinunn Þórðardóttir, formaður félagsins, í Pallborðinu á Vísi fyrr í dag.

Félagið hefur ekki skilað inn umsögn um frumvarpið né heldur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sjúkraliðafélagið hefur hins vegar sent inn umsögn og segist styðja frumvarpið.

Steinunn gagnrýndi samráðsleysi við samningu og framlagningu frumvarpsins, ekki síst þar sem þar væri kveðið á um aðkomu lækna að því að aðstoða fólk við að deyja.

„Þarna er bara nákvæm verklýsing á því að aðstoða einstakling eða jafnvel deyða einstakling og það hefur ekkert verið talað við okkur í aðdraganda þess að þetta er lagt fram, sem mér finnst áhugavert. Vegna þess að þessu er beint sérstaklega að okkar stétt, “ sagði Steinunn.

Sjá frétt og Pallborðið á visir.is