Læknafélagið lýsir yfir áhyggjum af stöðu samningamála við lækna

Stjórn Læknafélagsins lýsir áhyggjum sínum yfir stöðu samningamála lækna í bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra sem ritað er þann 27. apríl 2020. Hún leggur til að gert verið nýtt samkomulag við lækna eins og gert var í júní í fyrra.

Bent er á að læknar hafa verið samningslausir frá 1. mars 2019. „Staða mála í þjóðfélaginu vegna COVID-19 faraldursins er með þeim hætti að erfitt er að ná samningafundum milli aðila. Nokkrir fulltrúar lækna í samninganefnd LÍ eru í lykilstöðum þegar kemur að umönnun þeirra sem sýkst hafa af COVID-19,“ bendir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins, á í bréfinu fyrir hönd stjórnar.

Þar segir að í júní 2019 hafi verið gert samkomulag við lækna um eingreiðslu 1. ágúst 2019. Þá hafi ný viðræðuáætlun verið samþykkt. Samkomulagið sem Læknafélagið vill að nú verði endurnýjað hafi falið í sér: 

1) Að 1. júní nk. fái læknar eingreiðslu, sem muni líkt og eingreiðslan í ágúst 2019 dragast frá endanlegri samningsniðurstöðu; 

2) Að fyrningarákvæði símenntunarréttina í kjarasamningnum verði afvirkjað tímabundið; 

3) Að orlofsuppbót lækna verði greidd á hefðbundnum tíma í sumar miðað við síðustu fjárhæð hennar í útrunna samningnum; 

4) Að ákveðin verði friðarskylda milli aðila til 15. ágúst nk.

 Í bréfinu til vekur Læknafélagið athygli á því að laun lækna hafi ekki tekið breytingum frá 1. júní 2018 fyrir utan ómálefnalegrar launalækkunnar sem sérfræðilæknar á Landspítala hafi orðið fyrir frá áramótum þegar föst greiðsla fyrir breytilega yfirvinnu var afnumin.

Læknafélagið bendir að lokum á í bréfinu til fjármála- og efnahagsráðherra að í nágrannalöndum hafi læknar, sem eru í framlínunni þegar kemur að umönnun COVID-19 sjúklinga, fengið greiddar álagsgreiðslur. 

 „LÍ telur bæði sanngjarnt og eðlilegt að ákveðið verði að þessi læknahópur fái slíkar álagsgreiðslur og lýsir sig reiðubúið til viðræðna um fjárhæð álagsgreiðslna sem og um afmörkun þess hóps lækna sem þær fengju.“

Félagið óskar eftir jákvæðum og skjótum viðbrögðum ráðherra og sendir forsætis-, heilbrigðis-, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, formanni Samninganefndar LÍ og samninganefndar ríkisins og Landlækni afrit af bréfinu.

Mynd/Læknablaðið