Læknadagar 2022 verða 21.-25. mars nk.


Eins og skýrt var frá í tölvupósti til félagsmanna í lok síðasta árs þá reyndist útilokað annað en að fresta Læknadögum núna í janúar vegna stöðu mála í heimsfaraldrinum. Í þeim pósti var einnig sagt frá því að verið væri að vinna með Hörpu í því að finna annan tíma, en óvíst væri hvort það tækist. Það myndi skýrast í þessari viku.

Nú liggur niðurstaðan fyrir og það er stjórn Fræðslustofnunar alveg sérstök ánægja að geta sagt félagsmönnum frá því að eftir talsverða vinnu af allra hálfu hefur tekist að finna Læknadögum 2022 pláss í Hörpu dagana 21. - 25. mars nk.

Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi. Nú er bara að vona að þróun heimsfaraldursins verði með þeim hætti á næstu vikum að staðarfundi þessa vikuna í lok mars verði talið óhætt að halda.

Aftur verður opnað fyrir skráninguna á Læknadaga og eru félagsmenn hvattir til að skrá sig. Dagskráin verður óbreytt að mestu en nánari fréttir verða sendar jafnóðum og tilefni gefst til en einnig eru allar tilkynningar settar inná upplýsingasíðu Læknadaga.