Jón Eyjólfur og Sveinn Geir heiðraðir á Landspítala

Tveir læknar voru meðal þeirra 11 einstaklinga, starfsmanna Landspítala, sem voru heiðraðir á aðalfundi spítalans sem haldinn var á dögunum. Það voru þeir Jón Eyjólfur Jónsson, yfirlæknir í öldrunarlækningum, og Sveinn Geir Einarsson, yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Hringbraut. Einnig voru þrír hópar heiðraðir.

Heiðranirnar byggðust á tilnefningum samstarfsfólks og bárust um 140 tilnefningar sem dreifðust á hátt í 50 einstaklinga, hópa og teymi. Valefnd valdi hópinn. Þetta má lesa á vef Landspítala

Í rökstuðningi segir um Jón: „Jón Eyjólfur er einstaklega jákvæður og góð fyrirmynd; alltaf boðinn og búinn að hjálpa og sér jákvæðu hliðarnar á tilverunni.“ Um Svein er ritað: „Sveinn hefur einstakan hæfileika til að kalla það besta fram í fólki og smitar gleði og bjartsýni til allra í kringum sig.“

Önnur sem heiðruð voru við þetta tækifæri voru: Ásdís Ingvadóttir, sjúkraliði á göngudeild mæðraverndar og fósturgreiningar, Berglind Sigurðardóttir, svæfingahjúkrunar á svæfingu við Hringbraut, Bjarney Hrafnberg Hilmarsdóttir, ljósmóðir á fæðingarvakt, Hildigunnur Friðjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur á almennri göngudeild skurðlækninga, Hjördís Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga. Einnig Jerald Nueva Vallesterol, skrifstofumaður á lager eldhúss og matsala, Steinunn Ingvarsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu meðferðarsviðs, Steinunn G. Ástráðsdóttir, lífeindafræðingur á ísótópastofu röntgendeildar og Zineta Pidzo, heilbrigðisritari á móttöku bráðamóttöku.

Hóparnir þrír sem voru heiðraðir eru: Farsóttanefnd Landspítala,  Gjörgæslan í Fossvogi og Þjónustumiðstöð HUT - 1550. Í farsóttarnefnd Landspítala eru læknarnir Már Kristjánsson,  yfirlæknir og formaður, Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir og Valtýr Thors barnalæknir. Í rökstuðningi segir: „Farsóttanefnd stýrði vel heppnuðu viðbragði Landspítala við heimsfaraldri COVID-19 af framúrskarandi fagmennsku og öryggi þannig að eftir hefur verið tekið. Frábært fagfólk hvert og eitt sem við erum öll stolt af.“

Í valnefnd vegna heiðrana voru Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála, Kristín Jónsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra, Einar Stefán Björnsson, yfirlæknir á meðferðarsviði, Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður á aðgerðarsviði og Viktor Ellertsson, mannauðsstjóri á þjónustusviði. Starfsmaður nefndarinnar var Þórleif Drífa Jónsdóttir, verkefnastjóri á mönnunar- og starfsumhverfisdeild mannauðsmála.

Myndir/Skjáskot/Landspítali

Sjá umsagnir um öll hér.