Í tilefni kvennaverkfalls 2023

Læknafélag Íslands vekur athygli félagsmanna á því að á morgun hafa nokkrir aðilar boðað til kvennaverkfalls í tilefni alþjóðlega kvennadagsins, 24. október.

Kvennaverkfallið 2023 er hvorki verkfall í skilningi vinnulöggjafarinnar né frídagur launafólks. Kvennaverkfallið er baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og tekur launafólk þátt á eigin forsendum og samkvæmt eigin ákvörðun.

Víða um land verður boðað til dagskrár af þessu tilefni.

Læknafélag Íslands hefur kannað hvernig launagreiðendur lækna sem starfa samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ hyggist bregðast við þessum degi. Í ljós hefur komið að Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur gefið fyrirmæli, sem þessir launagreiðendur ætla að fylgja. Fyrirmælin eru:

Stjórnendur í samráði við starfsfólk eru beðnir um að leggja sig fram við að skapa aðstæður fyrir konur og kvár til að taka þátt í skipulagðri dagskrá 24. október nk. Skipulag þetta verður að taka mið af því að nauðsynlegustu almannaþjónustu sé sinnt og fjarvera þ.a.l. háð samþykki stjórnanda.
Ekki verður litið á fjarvistir kvenna og kvár vegna þátttöku í skipulagðri dagskrá, með samþykki stjórnanda, sem óréttmætar né verði dregið af launum vegna þeirra.

Eðlilegast er að læknar ræði við sinn næsta yfirmann og fái heimild hjá honum til að leggja niður störf til að taka þátt í þessum degi.

Sjálfstætt starfandi kvenlæknar ákveða hver fyrir sig hvað þær gera vegna þessa dags.

Starfsemi skrifstofu LÍ verður mögulega skert, að minnsta kosti eftir hádegi á morgun, 24. október.

Við hvetjum kvenlækna sem ekki komast frá þennan dag til að taka myndir af sér við störf undir #ómissandi. Það er mikilvægt að leggja áherslu á mikilvægi kvenna og kvár í heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónustan er algjörlega háð þessum hópi.