Runólfur hvetur til þess að tekið sé á sóuninni innan Landspítala

Lyfjakostnaður getur gert ríki gjaldþrota ef heldur áfram sem horfir. Þetta sagði Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga á Landspítala, á föstudagsfundi lyflækninga í morgun, 29. maí. Fundurinn var opinn og streymt á netinu.

Runólfur hvatti til þess að tekið væri á sóun á Landspítala. Nýting úrræða væri oft ómarkviss. Spítalinn þyrfti að meta árangur af starfinu og koma í veg fyrir tvíverknað. „Við höfum ekki staðið okkur nægilega vel í því að meta árangur og gæði þjónustu,“ sagði hann. Kostnaður vegna lyfja væri þó mikil áskorun. 

Yfirskrift fundarins var: Lyflækningar á Landspítala: Helstu áskoranir og framtíðarsýn. 

Runólfur ræddi hvernig bráðamóttakan hafi verið rauður þráður í lífi og starfi spítalans síðustu ár, eilíf vandamál þar sem keyrt hafi um þverbak um miðjan janúar.  Skipaður hafi verið átakshópur til að leysa vanda spítalans.

„Við verðum að átta okkur á því að þetta beinist fyrst og fremst að okkur,“ sagði hann. Vandi bráðamóttökunnar kristallist í þjónustu lyflækninga í sinni víðustu mynd. Inni í henni sé öldrunarþjónusta. Efst á blaði tillagnanna hafi verið tilmæli til forstjóra og framkvæmdastjórnar að taka þegar í stað stefnumarkandi ákvörðun um að sjúklingar flytjist á viðeigandi legudeild. „Við þurfum að bregðast við því,“ segir Runólfur. 

Vandi hafi verið að koma fólki í viðunandi vistunarúrræði. „En hér sem annars staðar þurfum við að skoða hvernig er að takast á við vandann í daglegu starfi.“ Skoða þurfi hvaða þjónustu sé skynsamlegt að veita. Hafa aðgang að göngudeildum og grípa fyrr inn í vanda fólks. Sóknarfæri séu til staðar á Landspítala. Breyta megi bráðaþjónustu.

„Aðrir hafa náð árangri með því að breyta flæði sjúklinga á legudeildum. Við höfum lítið sinnt því,“ sagði hann. 

Runólfur benti á að heimaþjónusta væri í molum. „Algjörum molum,“ sagði Runólfur. Hún sé í höndum heilsugæslunnar en spítalinn ætti einnig að koma þar að. „Við getum ekki sinnt þjónustunni en lagt til stefnumótandi úrræði.“ 

Hann sagði tækifærin mörg til að efla þjónustu. „En það þarf að sníða hlutverk starfsmanna að þjónustunni og þörfum sjúklinga en ekki að einstaklingar séu hver á sinn hátt að rækta sitt starfssviðs.“ Það eigi bæði við um lækna og hjúkrunarfræðinga. Setja þurfi ákveðin markmið og vinna sameiginlega að því.

Hann sagði að ákveða þyrfti hvaða verkefnum eigi að sinna á göngu- og dagdeildum spítalans. Þjónusta sjálfstætt starfandi lækna sé öflug. „En það skiptir máli að hlutverkaskipan sé nokkuð skýr til að forðast sóun og koma í veg fyrir tvíverknað.“

Runólfur ræddi fjarþjónustu. „Það sýndi sig í þessum faraldri hversu miklum árangri er hægt að ná í henni.“ Hægt hefði verið að mæla árangur í rauntíma. 

Runólfur fór nánar í saumana á sóun innan heilbrigðiskerfisins og benti á að mælingar í Bandaríkjunum sýndu að læknar væru ábyrgir fyrir 80% af sóuninni innan heilbrigðiskerfisins. „Það kemur svo sem ekki á óvart. Þeir eru ábyrgir fyrir flestum ákvörðunum í heilbrigðisþjónustunni og allri meðferð og greiningaprófunum og þar liggur stærsti hluti kostnaðar,“ sagði hann. Óviðeigandi lyfjameðferðir og sýklalyfjameðferðir hefðu sín áhrif. Ýmsu sé kennt um.

„Vandamálið er að Í núverandi kerfi eru ekki raunverulegir hvatar til að standa betur að málum,“ sagði hann. Lyfjakostnaður hafi vaxið gríðarlega. „Hann er orðinn meiriháttar áskorun því að kostnaðurinn eykst stöðugt,“ sagði hann og benti á grein í læknatímaritinu JAMA þar sem kallað væri eftir því að að stjórnvöld þjóða takist á við þennan vanda með regluverki. 

Runólfur fór yfir hvað læknar geti gert í daglegu starfi til að halda kostnaði niðri. „Í fyrsta lagi eigum við að eyða meiri tíma í  þessa klassísku aðferðafræði lyflækninga, viðtal við sjúkling, skoðun og fræða sjúklinga, ræða við þá og taka sameiginlega ákvörðun,“ sagði hann. Reynst hafi læknum erfitt að spá fyrir um horfur. 

„Það er oft ljóst að horfur eru slæmar en samt þráumst við við.“ En að spá fyrir um þróunina og taka afstöðu út frá henni sé afar mikilvægt til að ná árangri.

 

Mynd/Læknablaðið