Höfum gjörbylt heilsu ungra barna

Bólusetningar eru sú aðgerð sem hefur bjargað langflestum mannslífum á heimsvísu, nema ef vera skyldi að tryggja aðgang að hreinu vatni, segir Valtýr Stefánsson Thors barnasmitsjúkdómalæknir. Þarna er ekki síst verið að tala um börn yngri en fimm ára. Hann segir hins vegar að bólusetningar séu fórnarlömb eigin velgengni.

„Með tilkomu bóluefnanna hverfa margir af þessum sjúkdómum sem þóttu hryllilegir og voru það sannarlega. Eftir stendur þá minningin um þessa sjúkdóma sem smám saman snjóar yfir. Þá er það eina sem fólk horfir á, hvaða skaðlegu afleiðingar gæti það haft að bólusetja barnið mitt? Það gleymir sjúkdómnum og fer að hugsa um – hvað um þennan eina af 500.000 sem verður fyrir aukaverkun af bólusetningum? Það hefur síðan leitt af sér þetta vandamál sem hefur komið upp undanfarin ár og er kallað bólusetningarhik, þar sem foreldrar hika við að láta bólusetja börnin sín af ótta við aukaverkanirnar. Það er eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega. Það er ekki hægt að segja bara – hættið þessari vitleysu og látið bólusetja börnin ykkar! Það þarf að taka þetta samtal og vinna á þessu hiki,“ segir Valtýr.

Sjá viðtal við Valtý á visir.is