„Heimsmet í lýðheilsu og gjörgæslu“ - Grein Steins í Mogganum

„Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum hér á landi. Yfirvegaðar aðgerðir sóttvarnalæknis, landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hafa staðist þetta álagspróf með glæsibrag og vakið verðskuldaða athygli innan lands sem utan,“ ritar Stein Jónsson, prófessor í lungnasjúkdómum við Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands, í grein í Morgunblaðinu sem birtist í gær, 11. Maí. „Heilbrigðisþjónustan hefur nú sýnt hvers hún er megnug þegar mikið liggur við.“

„Í Bandaríkjunum hefur nú yfir ein milljón sýkinga greinst, en vafalaust eru margfalt fleiri sýktir, og fjöldi látinna er að nálgast 80.000. Ef þær tölur væru yfirfærðar á Ísland út frá fólksfjölda hefði mátt búast við um 80 dauðsföllum hér á landi nú þegar og ekkert lát væri á greiningu nýrra tilfella. Á Íslandi hafa nú greinst nálægt 1.800 tilfelli og dauðsföll eru 10 og dánartíðni því 1/8 af dánartíðni í Bandaríkjunum,“ segir í greininni. Lítið sýklalyfjaónæmi kunni að skýra árangurinn hér.

Hann segir í lokin: „Ríkisstjórnin hefur borið gæfu til þess að treysta fagfólkinu í einu og öllu fyrir þessu verkefni og má vel við una. Ekki aðeins hefur fagfólkið haft algert forræði heldur ótakmarkaðan stuðning stjórnvalda. Nú ættu allir sem um þetta hugsa að gera sér grein fyrir því hvað við erum með í höndunum þar sem er íslenska heilbrigðiskerfið og hlúa að því sem aldrei fyrr.“

Greinina má lesa í heild sinni hér fyrir þá með lykilorð að Morgunblaðinu.

Mynd/Skjáskot