Heimilislæknar skora á stjórnvöld að efla heilsugæsluna

Aðalfundur Félags íslenskra heimilislækna skorar á ríkisstjórn og Alþingi að halda áfram að efla heilsugæsluna og tryggja öllum landsmönnum fastan heimilislækni. Fundurinn hvetur einnig stjórnvöld til að setja í forgang að styðja og styrkja enn frekar uppbyggingu sérnáms í heimilislækningum á Íslandi.

„Nauðsynlegt er að tryggja heildstæða fjármögnun sérnámsins og bæta starfsaðstöðu sérnámslækna og leiðbeinenda á heilsugæslustöðvum,“ segir í ályktun fundarins sem haldinn var með fjarfundabúnaði og í Kópavogi 17. október síðastliðinn.

Salóme Ásta Arnardóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segir að fundurinn hafi gengið vonum framar miðað við aðstæður. „Við heimilislæknar erum eins og allir aðrir að í vinnutörn í þessum kórónuveirufaraldri. Heimilislæknar um allt land eru gífurlega uppteknir,“ segir hún enda sjái heilsugæslan um mörg þúsund sýnatökur á dag. Heimilislæknar skipi einnig stöðu sóttvarnarlækna um land allt. Aðalfundur heimilislækna kalli eftir styrkri umgjörð um starfið.

Í greinargerð með ályktun félagsins um eflda heilsugæslu segir að þýðingarmikið sé að einstaklingar og fjölskyldur hafi fastan heimilislækni.

„Þannig má veita örugga, samfellda og persónulega þjónustu óháð vandamálum eða sjúkdómum. Heilsugæsla á Íslandi á enn langt í land með að ná Norrænum viðmiðum um fjölda heimilislækna og starfsmanna í heilsugæslu,“ segir í greinargerðinni:

„Í yfirstandandi Covid faraldri hefur starfsemi heilsugæslunnar margsannað mikilvægi sitt en jafnframt hefur fylgt niðurskurður á almennri þjónustu heilsugæslunnar og mikið af mannafla verið sett í vinnu við varnir samfélags vegna COVID faraldurs. Mikilvægt er að tryggja rétta fjármögnun allra verkefna heilsugæslunnar svo aðgengi að heilsugæslu og góð þjónusta verði áfram aðalsmerki íslensks heilbrigðiskerfis.“

Salóme bendir á að heimilislæknar bíði eftir kjarasamningum. Þá kalli félagið eftir að styrkri umgjörð um sérnám heimilislækna. Í greinargerð um ályktun þess segir:

„Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er heilsugæslunni ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Ef það á að ganga eftir þarf m.a. að bregðast við skorti á heimilislæknum en á næstu áratug mun um helmingur heimilislækna á Íslandi ná eftirlaunaaldri.

Nú þegar hefur fjölgað mjög í sérnámi í heimilislækningum en betur má ef duga skal.

Brýn nauðsyn er á að styðja betur við sérnámið m.a. með því að styrkja frekari uppbyggingu og innviði námsins. Mikilvægt er að tryggja starfsaðstöðu sérnámslækna á heilsugæslustöðvum en húsnæði heilsugæslunnar er víða mjög takmarkað og ófullnægjandi. Styðja þarf við handleiðara og tryggja nægilegan fjölda þeirra og styrkja enn frekar stjórnunarþátt sérnámsins. Einnig þarf að huga að heildstæðari fjármögnun sérnámsins sem nú er að langstærstum hluta fjármagnað með rekstrarfé stofnana. Nauðsynlegt er að skilgreint fjármagn fylgi hverjum sérnámslækni.“

Fleiri ályktanir litu dagsins ljós á fundinum og verður þeim einnig gerð skil. Fundurinn kaus einnig nýja meðlimi í stjórn. Í stjórn Félags íslenskra heimilislækna eru: Salóme Arnardóttir formaður, Margrét Ólafía Tómasdóttir ritari, Jóhanna Ósk Jensdóttir gjaldkeri og Jón Torfi Halldórsson, Kristinn Logi Hallgrímsson, Oddur Steinarsson varaformaður, Þórir Kolbeinsson, Unnur Þóra Högnadóttir og Þórdís Anna Oddsdóttir. Jörundur Kristinsson er varaformaður og fulltrúi félagsins í stjórn Læknafélagsins ásamt formanni FÍH.

Mynd/Læknablaðið