Heilbrigðisþjónusta hangi á bláþræði víða á landsbyggðinni

Viðtal úr Fréttablaðinu: 

Það stefnir hratt í að ákveðin byggðarlög verði læknislaus innan fárra ára ef ekkert verður að gert, segir formaður Læknafélags Íslands. Heilbrigðisþjónustan hangi víða á bláþræði sökum manneklu og fjöldi lækna sé að komast á aldur, án þess að útséð sé með eftirmenn þeirra.

"Það sem mér fannst verst var að sjá að við erum ekki vel sett neins staðar þegar kemur að mönnun,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

„Ég er sjálf læknir á Landspítalanum og hef unnið þar alla mína starfsævi á Íslandi. Maður heldur alltaf að við séum á botninum varðandi mönnun og starfsumhverfi, en svo kemur í ljós að við erum öll á sama báti. Og það virðist vera sem enginn sé að koma til að bjarga okkur,“ segir Steinunn en hún er nýlega komin úr hringferð um landið þar sem hún heimsótti heilbrigðisstofnanir og ræddi við lækna.

„Á stærri stöðum eins og Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum er mjög þungt hljóð í fólki, veruleg mannekla og vaxandi álag. Það er skortur og þá sérstaklega í heilsugæslunni. Til dæmis á Selfossi. Þetta er svæði þar sem íbúum hefur fjölgað gríðarlega, þar er risastór sumarhúsabyggð og mikill ferðamannafjöldi fer þarna í gegn daglega. En á sama tíma hefur heilsugæslulæknum ekki fjölgað og þá erum við að tala um mörg ár aftur í tímann,“ segir Steinunn. Auk þess sé aðstaðan ekki til fyrirmyndar.

„Bráðamóttakan þar er gjörsamlega sprungin og í algjörlega óviðunandi húsnæði sem er í raun engan veginn í stakk búið til að taka við öllu þessu álagi.“

Að sögn Steinunnar er það aðstaðan sem og manneklan sem læknar á landsbyggðinni kvarta helst sáran yfir. Vaktabyrðin sé mikil á hverjum og einum, sem leiði af sér að menn séu bundnir sólarhringunum saman.

Sjá nánar viðtal við Steinunni á frettabladid.is

Sjá einnig viðtalið í Fréttablaðinu hér