Heiðursviðurkenningar á aðalfundi LÍ 2018

Formaður LÍ Reynir Arngrímsson afhendir Þóreyju J. Sigurjónsdóttur heiðursviðurkenninguna.
Formaður LÍ Reynir Arngrímsson afhendir Þóreyju J. Sigurjónsdóttur heiðursviðurkenninguna.

Í kvöldverðarboði sem haldið var 8. nóvember sl. í tengslum við aðalfund LÍ 2018 voru fjórir kvenlæknar heiðraðar fyrir störf sín.

Reynir Arngrímsson formaður LÍ sagði m.a. í ávarpi sínu:

   "Á aðalfundi á aldarafmælisári hefur stjórn félagsins ákveðið að veita fjórum kvenlæknum heiðursviðurkenningar. Þær eiga það allar sammerkt að vera frumkvöðlar og mikilvægar fyrirmyndir í læknastétt, hver með sínum hætti. Þetta eru Bergþóra Sigurðardóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Helga Ögmundsdóttir og Þórey J. Sigurjónsdóttir.

Bergþóra og Þórey eru í hópi 25 fyrstu kvennanna sem útskrifuðust úr læknadeild Háskóla Íslands. Guðrún Agnarsdóttir hefur ekki einungis helgað læknisfræðinni starfskrafta sína heldur lét hún um árabil til sín taka svo eftir var tekið á hinum pólitíska vettvangi. Helga Ögmundsdóttir er frumkvöðull í uppbyggingu rannsóknanáms í læknisfræði og lífvísindum. Hún hefur haft kennslu vísindarannsóknir að ævistarfi og birt yfir 100 ritrýndar greinar í öllum helstu og fremstu vísindaritum heims.

Háskóli Íslands var stofnaður 1911. Engin kona útskrifaðist þó úr læknadeild fyrr en 1917. Kvenlæknum fjölgaði hægt á næstu áratugum. Á þriðja áratug (1920-1929) útskrifaðist ein kona, á fjórða áratugnum (1930-1939) þrjár. Á fimmta áratugnum (1940-1949) rúmlega tvöfaldaðist í hópi kvenlækna því samtals 7 konur útskrifuðust á þessu tímabili, þar af tvær 1948 og þrjár 1949. Á sjötta áratugnum (1950-1959) bættust níu kvenlæknar í hópinn, þar af útskrifuðust tvær 1958. Það er ekki fyrr en árið 1964 sem fjöldi útskrifaðra kvenkandidata náði tölunni 25, 47 árum eftir að Kristín Ólafsdóttir útskrifast fyrst íslenskra kvenna.

Í tilefni aldarafmælis LÍ á þessu ári hefur stjórn LÍ horft til þessara 25 fyrstu kvenlækna. Fimm þeirra eru enn á lífi eftir því sem næst verður komist: Anna Katrín Emilsdóttir f. 1937, útskrifuð 1964 (24. konan), Bergþóra Sigurðardóttir f. 1931, útskrifuð 1958 (19. konan), Guðrún Jónsdóttir f. 1926, útskrifuð 1955 (16. konan), Kristín Gísladóttir f. 1936, útskrifuð 1963 (23. konan) og Þórey J. Sigurjónsdóttir f. 1930, útskrifuð 1959 (21. konan).
Anna Katrín og Kristín hafa verið erlendis alla sína starfsævi og á ævikvöldi. Guðrún sem er elst lifandi kvenlækna glímir við óminni.

Bergþóra er hér í kvöld. Þórey treysti sér ekki til að koma en bað fyrir góðar kveðjur hingað. Stjórn LÍ hefur ákveðið í tilefni aldarafmælis félagsins að heiðra þær sem fulltrúa þeirra frumkvöðla sem brutu ísinn fyrir komandi kynslóðir kvenna. Þær konur sem fyrstar fóru í læknisfræði, útskrifuðust og störfuðu sem læknar áttu þátt í því að breyta staðalímyndinni um að læknir væri karlmaður. Þessar konur voru öðrum konum sem á eftir komu mikilvægar fyrirmyndir og ruddu fyrir þær brautina. Þökk sé þeim og öðrum konum sem á eftir komu er staðan sú núna, einni öld og ári betur eftir að fyrsta konan útskrifaðist úr læknadeild að konur eru um 40% íslenskra lækna."

Ávarp formanns LÍ við afhendingu heiðursviðurkenninga má lesa í heild sinni HÉR

                                                                                       

                                             F. v. Bergþóra Sigurðardóttir, Guðrún Agnarsdóttir,                                     Þórey J. Sigurjónsdóttir
                                             Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Helga Ögmundsdóttir                   

                       

                                                                        

                                                   Anna Katrín Emilsdóttir               Guðrún Jónsdóttir                           Kristín Gísladóttir (mynd úr Læknatalinu)