Hættulegt viðhorf gagnvart leghálsskimunum

Nauðsynlegt er að hafa einn sameiginlegan aðila sem heldur utan um allar rannsóknir leghálssýna. „Með þeim hætti eru minnstar líkur á mistökum og að konur týnist í kerfinu.“

Þetta segja þau Arndís Vala Arnfinnsdóttir, Ólafur M. Haakansson og Þórður Óskarsson í grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Þau segja bið kvennanna eftir niðurstöðum leghálsskimana sem gerðar voru Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í vetur sé síður en svo á enda, enda eigi ðeins að gera HPV-próf á þessum sýnum í Danmörku.

„Sá hluti kvenna sem greinist með jákvætt skimpróf fyrir HPV þarf að fara aftur í sýnatöku til þess að hægt sé að vinna úr sýnunum frumustrok til rannsóknar. Hluti af þessum konum þarf svo að fara í leghálsspeglun og sumar af þeim í keiluskurð. Bið þessara kvenna er því síður en svo á enda,“ segir í greininni.

Þau benda á að hægt að nota nýtt tæki á veirufræðideild Landspítalans sem geti með PCR-tækni greint nokkur þúsund veirusýni á dag. Niðurstaðan hefði fengist á einum til tveimur dögum.

„Fyrst eingöngu átti að gera HPV-mælingu á sýnunum hefði verið hægt að klára það á fyrstu dögum janúarmánaðar á veirufræðideild Landspítalans og hefði það stytt bið allra þessara kvenna til muna. Nú munu flestar þær konur sem greindust HPVjákvæðar hafa fengið innköllun í nýja sýnatöku, þremur mánuðum eftir að þær fóru í fyrri sýnatökuna, en hins vegar höfum við sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknar ekki fengið neinar niðurstöður sendar sem tilheyra okkar skjólstæðingum sem er bagalegt þegar konurnar leita til okkar,“ segja þau.

Þau spyrja spurninga: „Er byrjað að kalla inn konur sem þurfa eftirfylgni vegna frumubreytinga í síðasta sýni? Við vitum ekki svarið við þessu. Hver tryggir að konur séu kallaðar inn í rannsóknir á réttum tíma? Hver sér til þess að konur fái viðeigandi meðferð eins og leghálsspeglun eða keiluskurð?“

Kvensjúkdómalæknar hafi kallað eftir svörum við þessu en fengið svör sem eru þess eðlis að þau efist um heilindi Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana gagnvart kvensjúkdómalæknum sem starfi á sínum læknastofum og hafi staðið fyrir 40% af sýnatökum árlega.

„Í svari er beinlínis hótað að samhæfingarstöðin muni ekki samræma niðurstöður leghálssýna við sína skrá og láta hverjum og einum lækni það eftir að túlka niðurstöðurnar. Þetta viðhorf er hrollvekjandi og beinlínis hættulegt.“

Þau benda á að núverandi kerfi hafi verið í gildi í tvo mánuði og enn sé ekki ljóst hvernig þessi grundvallaratriði í kerfinu eigi að virka. „Skimun fyrir leghálskrabbameini er heilbrigðisþjónusta sem á að minnka líkur á alvarlegu meini hjá konum. Gott skipulag er grundvallaratriði fyrir því að það takist og það vantar því miður enn.“

Mynd/Skjáskot/Morgunblaðið