Gunnar Mýrdal Einarsson er látinn

Gunnar Mýrdal Einarsson læknir, sérfræðingur í brjóstholsskurðlækningum og yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala, lést 10. september eftir harða baráttu við krabbamein. Hann var 56 ára. Eiginkona Gunnars er Ingibjörg Kristjánsdóttir, f. 1979, lyflæknir og sérfræðingur í hjartalyflækningum. Gunnar lætur eftir sig sjö börn og eina ófædda dóttur.

Gunnar fæddist 11. apríl 1964 á Akranesi, sonur hjónanna Einars S. Mýrdals Jónssonar skipasmíðameistara og Huldu Haraldsdóttur, fv. innheimtustjóra. 

Gunnar varð stúdent frá Fjölbrautaskóla Vesturlands 1984. Hann lauk prófi frá læknadeild Háskóla Íslands vorið 1991, sérfræðinámi í almennum skurðlækningum 1998 og í brjóstholsskurðlækningum frá Uppsalaháskóla árið 2001. Gunnar varði doktorsritgerð sína við Uppsalaháskóla árið 2003 og lauk MBA-námi í stjórnun við HR árið 2016. 

Gunnar fór til sérnáms í Svíþjóð árið 1996 þar sem hann starfaði við Centrallasarettet Västerås fyrstu 2 árin. Starfaði síðan við hjarta- og lungnaskurðdeild Uppsala Akademiska Sjukhus þar sem hann var yfirlæknir árin 2006- 2008. Hann fluttist heim til Íslands árið 2008 og starfaði sem sérfræðingur við brjóstholsskurðlækningadeild Landspítala frá þeim tíma og var yfirlæknir við deildina frá 2016. Gunnar var virkur í félagsstörfum lækna og sat í stjórn Læknafélags Íslands síðastliðin 2 ár sem gjaldkeri félagsins. Eftir Gunnar liggja margar fræðigreinar og rannsóknaskýrslur. 

Læknafélag Íslands sendir aðstandendum samúðarkveðjur.  Hans er minnst með þakklæti fyrir störf hans sem læknis og fyrir félagsmenn.