Gerðardómur úrskurðar í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við ríkið

Gerðardómur úrskurðaði í gær að ríkið skuli veita 900 milljónir króna á ári til Landspítalans frá og með deginum í gær til loka gildistíma kjarasamnings hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu til að bæta kjör þeirra.

Aðrar heilbrigðisstofnanir fái 200 milljónir króna í hlutfalli við þann meðalfjölda stöðugilda hjúkrunarfræðinga sem störfuðu á hverri stofnun fyrir sig í fyrra. Gert er ráð fyrir launatengdum gjöldum í þessari upphæð.

Hjúkrunarfræðingar samþykktu miðlunartillögu ríkissáttasemjara í lok júní og var verkfalli á þriðja þúsund hjúkrunarfræðinga afstýrt. Miðlunartillagan innihélt öll þau atriði sem samkomulag náðist um við samningaborðið en ágreiningsefnum um launalið var að hluta vísað í gerðardóm. 

Gerðardómur í máli hjúkrunarfræðinga og ríkisins komst að þeirri niðurstöðu að sérstakra rannsókn þyrfti til að meta hvort laun hjúkrunarfræðinga væri í samræmi við ábyrgð, álag, menntun og inntak starfa þeirra samanborið við aðrar háskólamenntaðar stéttir sem starfa hjá ríkinu.  Mælikvarðar til að meta ábyrgð, álag og inntak starfa séu ekki fyrirliggjandi. 

Dómurinn gerði þrátt fyrir það tilraun til að varpa einhverju ljósi á stöðu hjúkrunarfræðinga í samanburði við aðra hópa. „Fyrir liggur að af hálfu stjórnvalda eru í bígerð ráðstafanir til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta,“ segir í dómnum. 

„Slíkar ráðstafanir munu hafa áhrif á starfskjör hjúkrunarfræðinga. Þá munu, eins og að framan er rakið, umsamdar breytingar á vinnutíma hafa veruleg áhrif í þá átt að leiðrétta starfskjör meirihluta almennra hjúkrunarfræðinga. Í ljósi alls þessa telur gerðardómurinn rétt og hæfilegt að skapa forsendur til leiðréttingar á launakjörum almennra hjúkrunarfræðinga með tilliti til ábyrgðar með því að ákvarða framlag til stofnanasamninga eins og í úrskurðarorði greinir.“ 

Í úrskurðinum má sjá launaþróun stétta í starfi hjá ríkinu. Meðaldagvinnulaun nokkurra heilbrigðisstétta frá árinu 2015 til fyrstu sex mánaða ársins 2020 eru borin saman. Sjá má í töflu að meðaldagvinnulaun hjúkrunarfræðinga eru 638.361 en 950.152 hjá læknum. 

Deila hjúkrunarfræðinga og ríkisins fór til gerðardóms eftir næstum 60 samninga- og vinnufundi frá í mars 2019 og fram í júní 2020.  Gerðardómi var gert að fjalla um afmörkuð atriði launaliðs sem samninganefndirnar gátu ekki komið sér saman um. 

Í gerðardómnum sátu Ástráður Haraldsson, héraðsdómari og aðstoðarríkissáttasemjari sem jafnframt er formaður, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og doktor í sálfræði og Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og doktor í heilsuhagfræði.

Mynd/Læknablaðið/myndskreyting

Lesa má úrskurðinn hér.

Mynd/Skjáskot úr úrskurði gerðardóms