Fylgja þarf slösuðum sjómönnum eftir - Guðni í Sjómannadagsblaðinu

Forvarnir og öryggi á sjó hefur skilað sér í færri slysum og dauðsföllum. Nú er svo komið að enginn hefur látið lífið á sjó síðustu þrjú ár. Þetta kemur fram í viðtali við Guðna Arinbjarnar bæklunarlæknir í Sjómannadagsblaðinu sem dreift var með Morgunblaðinu í dag. Guðni hefur í um 20 ár einnig starfað sem sjómannalæknir. Hann rekur fyrirtækið Sjómannaheilsa ásamt eiginkonu sinni, Svanlaugu Ingu Skúladóttur hjúkrunarfræðingi.

„Það er mjög mikilvægt að fylgja þeim sem lent hafa í óhöppum vel eftir, alveg frá því að þeir slasast eða veikjast og þangað til þeir fara aftur til vinnu,“ segir Guðni í viðtalinu. 

„Það þarf að vísa þeim sem hafa af einhverjum ástæðum orðið óvinnufærir áfram í kerfinu, finna réttu úrræðin til að ná bata og tryggja að þeir komist aftur í vinnu, hvort sem það er á sjó eða við annað. Við sjá í dag fleiri snúa aftur til vinnu eftir slys eða óhöpp en fyrir 10-15 árum. Tilfinningin er að stærri örkumlandi slysum hefur fækkað, en betur má ef duga skal og það þarf alltaf að vera á tánum varðandi öryggismál sjómanna. Hér má aldrei slaka á.“

„Sjómennskan í dag er ekki sú sama og hún var fyrir 20 árum og hvað þá þegar horft er lengra aftur í tímann,“ segir Guðni. 

„Það virðist vera að hraustari menn, ef þannig má taka til orða, veljist á sjó nú. Það kann að skýrast að miklu leyti af því að sjómönnum hefur fækkað samhliða betri skipum og betri tækjabúnaði um borð auk þess sem atvinnulífið er fjölbreyttara nú en áður. Hér á árum áður fóru margir á sjó án þess að eiga um marga aðra kosti að velja en nú eru frekar einstaklingar um borð sem velja sér þetta starf umfram önnur. Sjómannastéttin er líka að eldast því nú geta menn verið lengur á sjó en áður var vegna breytinga á eðli vinnunnar.

Mynd/Skjáskot/Sjómannadagsblaðið

Áskrifendur að Morgunblaðinu geta nálgast blaðið hér.