Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) 2025 var haldinn í Stykkishólmi 2. - 3. október sl. Aðalfundarfulltrúar voru 83 og mættu flestir til fundarins. Heilbrigðisráðherra, Alma D. Möller og landlæknir María Heimisdóttir ávörpuðu aðalfundargesti og svöruðu fyrirspurnum.
Í stjórn LÍ starfsárið 2025-2026 verða: Steinunn Þórðardóttir, formaður, sem var sl. vor endurkjörin formaður til næstu tveggja ára frá þessum aðalfundi, Teitur Ari Theodórsson og Thelma Kristinsdóttir frá Félagi almennra lækna, Margrét Ólafía Tómasdóttir og Oddur Steinarsson frá Félagi ísl. heimilislækna, Hildur Jónsdóttir og Jóhanna Guðrún Pálmadóttir frá Félagi sjúkrahúslækna og Katrín R. Kemp Guðmundsdóttir og Ragnar Freyr Ingvarsson frá Læknafélagi Reykjavíkur. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi 13. október nk.
Á aðalfundinum voru samþykktar þrjár ályktanir til stjórnvalda um málefni sem snerta heilbrigðismál:
Ályktun um kortlagningu heilbrigðiskerfisins þar sem skorað er á heilbrigðisráðherra að ljúka sem fyrst ítarlegri kortlagningu á heilbrigðiskerfinu í samvinnu við Læknafélag Íslands og aðra hagaðila. Slík kortlagning myndi gefa skýra mynd af allri heilbrigðisþjónustu hér á landi, þar á meðal starfseiningum, mannafla, framleiðni og öðrum lykilþáttum og þannig skapa traustan grunn fyrir markvissa stefnumótun, verkaskiptingu og úrbætur í þjónustu til framtíðar.
Ályktun um nýtt greiðsluþátttökukerfi skorar á heilbrigðisráðherra að breyta greiðsluþátttökukerfum í sjúkrakostnaði og lyfjakostnaði og taki bætt kerfi gildi innan tveggja ára. Í ályktuninni er bent á það að núverandi kerfi geta haft hamlandi áhrif á komur einstaklinga til læknis sem og kaup þeirra á lyfjum. Þetta eigi sérstaklega við um yngra fólk og tekjulægri einstaklinga. Greiðsluþátttökukerfi eiga ekki að hindra aðgang að læknisþjónustu eða lyfjum. Læknafélag Íslands lýsir sig reiðubúið til samvinnu við stjórnvöld um útfærslu á þessum breytingum.
Ályktun um eitt tölvukerfi fyrir blóðprufubeiðnir og svör skorar á heilbrigðisyfirvöld að setja á laggirnar innan árs eitt tölvukerfi sem tekur við blóðprufubeiðnum og sýnir niðurstöður, hvar sem prufurnar eru teknar. Nú séu beiðnir og niðurstöður í ólíkum kerfum sem stuðlar að óskilvirkni, býður upp á að blóðprufuniðurstöður fari forgörðum, og geti ógnað öryggi sjúklinga. Læknafélag Íslands lýsir sig reiðubúið til samvinnu við stjórnvöld um útfærslu.
Læknafélag Íslands
Hlíðasmári 8, 201 Kópavogur - lis@lis.is
Afgreiðslutími
Mánudaga til fimmtudaga 9-16
Föstudaga 9-13