Fréttir af aðalfundi LÍ

Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) 2019 hófst í gær, 26. september á Siglufirði. Formaður LÍ, Reynir Arngrímsson ávarpaði aðalfundarfulltrúa við setningu aðalfundarins. Landlæknir Alma D. Möller var viðstödd setningu fundarins og ávarpaði aðalfundarfulltrúa. Kjörnir aðalfundarfulltrúar eru 68 en aðalfundurinn er opinn öllum félagsmönnum sem eru nú rúmlega 1400.

Að ávörpum loknum hófust venjuleg aðalfundarstörf. Formaður fór yfir skýrslu stjórnar LÍ fyrir starfsárið 2018-2019, reikningar félagsins og stofnana þess voru kynntir og samþykktir, tillögur til ályktana voru kynntar. Vinnuhópar munu fjalla nánar um tillögurnar eftir hádegi í dag. Engar lagabreytingatillögur bárust innan tímamarka.

Aðalfundi var frestað kl. 17:30 í gær. Þá fengu aðalfundarfulltrúar kynningu á starfsemi Genis á Siglufirði og heimsóttu verksmiðju fyrirtækisins. Aðalfundarfulltrúar, makar og gestir snæddu síðan kvöldverð  í gærkvöldi í Kaffi Rauðku .

Að loknum morgunverði (27.sept)  kynntu Örn Ragnarsson framkvæmdastjóri lækninga og Valþór Stefánsson heilsugæslulæknir starfsemi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Í kynningu þeirra fóru þeir yfir ýmsar áskoranir sem stofnunin glímir við, s.s. mönnunarvanda. Á flestum starfsstöðvum stofnunarinnar vantar nokkuð upp á að heimilaðar stöður lækna séu mannaðar með föstum læknum. Heilbrigðisþjónustan á Siglufirði og þróun hennar var einnig kynnt.

Nú var að hefjast málþing um símenntun lækna. Framsöguerindi flytja Friðbjörn Sigurðsson, Reynir Arngrímsson og Runólfur Pálsson. Framsögumenn ásamt landlækni munu síðan taka þátt í pallborðsumræðum um efnið. Málþingsstjóri er Guðrún Ása Björnsdóttir formaður FAL.

Hefðbundin aðalfundarstörf halda svo áfram eftir hádegi í dag. Ráðgert er að aðalfundinum ljúki kl. 16.

  

Myndir: GAG 

Sjá fleiri myndir HÉR