Dagur lækna 17.maí 2024

Stjórn Læknafélags Íslands hefur ákveðið að framvegis verði 17. maí ár hvert Dagur lækna. Þessi dagur er valinn því hann tengist náið sögu lækninga á Íslandi. Fyrsti sérmenntaði læknir landsins, sem einnig varð fyrsti landlæknirinn, Bjarni Pálsson, fæddist þennan dag árið 1719. Á þessu ári eru því 305 ár liðin frá fæðingu Bjarna Pálssonar. Stjórn LÍ telur vel við hæfi að velja þennan dag til að verða framvegis Dagur lækna á Íslandi.

Víða um lönd er árlega haldið upp á Dag lækna til að viðurkenna mikilvægt framlag lækna gagnvart sjúklingum og samfélaginu öllu. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem þetta verður gert á Íslandi. Stjórn LÍ áformar að árlega verði haldið upp á Dag lækna, með margvíslegum og myndarlegum hætti.

Í tilefni þessa fyrsta Dags lækna á Íslandi mun Læknafélag Íslands efna til umræðu um mikilvægi starfa lækna, mikilvægi þess að læknar geti sinnt störfum sínum þannig að sem mestur tími gefist til að sinna sjúklingum og aðstandendum þeirra og sem minnstur tími fari í óþarfa skriffinnsku og verkefni sem er kerfislega hagkvæmara að aðrir sinni. Læknar telja mikilvægt að þeir fái sem mest svigrúm til að sinna lækningum, sem eru kjarninn í þeirra störfum. Læknisþjónustu á ekki að beina til annarra heilbrigðisstétta heldur öðrum störfum sem ekki tengjast með sama hætti kjarnastörfum lækna. Þá skiptir máli að starfsumhverfi lækna hér á landi samrýmist því sem best er í nágrannalöndum okkar því Ísland keppir við þau um starfskrafta lækna. Læknar eru starfsmenn sem mikil alþjóðleg eftirspurn er eftir og þeir geta gengið í störf hvar sem er í heiminum.

Þetta þurfa íslensk heilbrigðisyfirvöld að meðtaka. Íslenskt heilbrigðiskerfi er í virkri samkeppni við nágrannalöndin um vinnuafl lækna. Staðreyndin er sú að kringum 400 íslenskir læknar hafa kosið að snúa ekki aftur til Íslands að sérfræðinámi loknu. Það er umhugsunarefni af hverju svo margir íslenskir læknar kjósa að starfa áfram erlendis. Það er þjóðfélagslega dýrt því flestir þessara lækna hafa fengið grunnmenntun sína í læknisfræði á Íslandi.

Læknafélag Íslands hefur ritað stjórnendum allra heilbrigðisstofnana og óskað eftir því að heilbrigðisstofnanir fagni með verðugum hætti þessum fyrsta Degi lækna, á sambærilegan hátt og dögum annarra heilbrigðisstétta.