Forstjóri hunzar faglegar ábendingar

Almennur læknaráðsfundur þann 15. nóvember 2019 mótmælir harðlega því breska kerfi sem Landspítalinn hefur valið að nota til jafnlaunavottunar. Þrátt fyrir ítrekuð andmæli og virka upplýsingagjöf af hálfu læknaráðs og læknafélaga hafa stjórnendur spítalans haldið áfram að meta störf lækna með tæki sem tekur hvorki tillit til eðlis læknisstarfsins né menntunarkröfu lækna. Læknar munu hvorki sætta sig við að þeirra sjónarmið verði hunsuð, né að spítalinn fái jafnlaunavottun með þessum hætti, í andstöðu við lækna. Læknaráð hvetur yfirstjórn spítalans til þess að hverfa af þessari braut en nota þess í stað jafnlaunakerfi sem aðrar íslenskar heilbrigðisstofnanir hafa notað með farsælum hætti.

Samkvæmt forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, er ólíklegt að það takist að klára innleiðingarferli jafnlaunavottunar hjá þeim fjölmörgu stofnunum sem samkvæmt lögum skuli öðlast vottun fyrir áramót. Því telst eðlilegt að Landspítalinn, sem langstærsti vinnustaður landsins, taki sér þann tíma sem til þarf að ljúka undirbúningi jafnlaunavottunar í fullri sátt við allar starfsstéttir spítalans.