Formaður Læknaráðs segir lækna skorta víðar en á bráðamóttökunni

Stjórn Læknaráðs lýsir í ályktun frá 18. maí yfir áhyggjum af mönnun sérfræðilækna á bráðamóttöku spítalans í sumar. „Staðan er ítarlega reifuð í bréfi sem allir sérfræðingar bráðamóttökunnar sendu forstjóra þann 6. maí 2021. Ljóst er að mönnun sérfræðinga á bráðamóttökunni í sumar er undir skilgreindri neyðarmönnun og fyrirliggjandi að hver sérfræðingur gæti þurft að axla ríflega tvöfalt fleiri verkefni en venja er,“ segir í ályktuninni og því lýst að þegar mönnun sé undir skilgreindri neyðarmönnun sé einsýnt að hætta á alvarlegum atvikum aukist og torvelt sé að tryggja öryggi sjúklinga.

„Stjórn Læknaráðs telur brýnt að fá svör án tafar við þeim spurningum sem sérfræðingarnir lögðu fram í bréfi sínu:

  • Herra forstjóri: Hver er ábyrgð Landspítala og yfirstjórnar hans á aðstæðum þar sem fyrirsjáanlegt er að öryggi sjúklinga verður alls ekki tryggt?
  • Hvenær hættum við sem „ábyrgir sérfræðingar“ að bera ábyrgð og húsbóndaábyrgð Landspítala tekur við?“

Stjórn Læknaráðs skorar á yfirstjórn spítalans að bregðast skjótt við og tryggja bæði öryggi sjúklinga og forða læknum frá því að lenda í alvarlegum atvikum í starfi vegna manneklu og skorts á yfirsýn.“

Sagt var frá því að samdráttur starfseminnar verði í sumar en í fyrra í fréttum RÚV þann 26.maí. Þá sagði Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, að því miður hefði verið mikið álag á bráðamóttökunni í talsverðan tíma og nokkrir læknar kosið að hætta störfum. „Og þess vegna erum við í vandræðum með að ná að halda lágmarksmönnun sérfræðilækna á bráðamóttökunni í sumar,“ bætti hann við og sagði frá því hvernig skoðað væri að leysa vandann.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknaráðs á Landspítala og öldrunarlæknir, bendir á í samtali við lis.is að mönnun lækna sé áskorun á fleiri deildum Landspítala en á bráðamóttöku, sérstaklega yfir sumartímann.

„Útskriftarvanda spítalans gætir mun víðar með auknu álagi á þjónustuna. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér að lausnin á manneklu sérfræðinga á bráðamóttökunni sé sú að breyta starfssviði sérgreinalækna annarra deilda spítalans sem einnig glíma margar við mikla undirmönnun,“ segir hún.

„Þessi vandi verður ekki leystur með því að auka álagið enn frekar á lækna spítalans, enda ærið fyrir. Hér er um að ræða kerfislægan vanda sem hefur blasað við lengi og krefst breytinga á öllu kerfinu, en er ekki einkamál spítalans, hvað þá einkamál sérfæðinganna sem þar starfa,“ segir Steinunn.