Fjármálaáætlun og megináherslurnar í heilbrigðismálum

Stórauknum fjármunum verður varið til að lækka greiðslubyrði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu, styrkja geðheilbrigðisþjónustuna um allt land og efla heilbrigðisþjónustu við aldraða samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Áætlunin endurspeglar áherslur heilbrigðisráðherra og markmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Fjármálaáætlunin var lögð fram 23. mars og fyrri umræða um hana fer nú fram á Alþingi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist stolt af því að kynna sinn hlut í fjármálaáætluninni og áherslurnar sem þar birtast: „Ég hef lagt á það mikla áherslu að bæta þjónustu við aldraða og efla geðheilbrigðisþjónustuna og enn fremur að jafna aðgang fólks að heilbrigðisþjónustunni óháð búsetu og efnahag. Fjármálaáætlunin endurspeglar þessar áherslur mínar og boðar breytingar á heilbrigðisþjónustunni til framtíðar í þágu almennings í landinu.“

Samkvæmt fjármálaáætluninni verður hlutur sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu lækkaður umtalsvert á komandi árum. Strax á næsta ári eykst hlutdeild ríkisins í kostnaði sjúklinga um 300 milljónir króna. Næstu fjögur ár eykur ríkið hlutdeild sína um 800 milljónir króna ár hvert. Aukin framlög ríkisins til þess að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu nema á tímabilinu um níu milljörðum króna. Stefnt er að því að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi verði sambærileg því sem gerist hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Sjá frétt á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins