Fjarheilbrigðisþjónusta hjá sjálfstætt starfandi læknum

Þetta er stórt skref og mikilvægur áfangi í þjónustu við sjúklinga á umrótartímum, segir Reynir Arngrímsson formaður LÍ eftir að samkomulag hefur náðst að frumkvæði Læknafélags Reykjavíkur við Sjúkratryggingar Íslands um að gera fjarheilbrigðisþjónustu aðgengilega hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum. Svo leit út fyrir að stór hópur sjúklinga hefði gleymst í aðgerðum vegna COVID-19 faraldursins. Með þessu samkomulagi er verið að tryggja að eftirlit og þjónusta haldi áfram við breyttar aðstæður. Nú ríður á að Heilbrigðisráðuneytið og SÍ klári málið hratt og vísar Reynir til fréttatilkynningar SÍ um málið sem birt var í morgun, en þar segir m.a.:

"Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) vinna að því að auðvelda sjúklingum aðgengi að heilbrigðisþjónustu við þær aðstæður sem nú ríkja með því að bjóða upp á fleiri þjónustuform. Þannig munu SÍ greiða veitendum fyrir fjarheilbrigðisþjónustu, þ.e. símtöl og myndsímtöl, þegar það hentar sjúklingi og þegar skilyrði um slíka þjónustu eru uppfyllt. Þetta á bæði við um þjónustu heilsugæslu og sérgreinalækna og ef til vill fleiri. Að sjálfsögðu gildir þetta eingöngu um þjónustu sem hið opinbera tekur nú þegar þátt í að greiða".

Lesa má fréttatilkynninguna í heild sinni hér