Félag sjúkrahúslækna stofnað


Nýtt aðildarfélag að Læknafélagi Íslands, Félag sjúkrahúslækna (FSL) var stofnað í gær þann 18. janúar 2018 á Læknadögum. Stofnun félagsins ber upp á 100 ára afmæli LÍ. Á síðasta aðalfundi haustið 2017 var nýtt skipulag fyrir LÍ samþykkt. Aðildarfélög þess verða nú fjögur, Félag íslenskra heimilislækna (FÍH), Félag almennra lækna (FAL), Félag sjálfstætt starfandi lækna/Læknafélag Reykjavíkur (LR) og hið nýja félag sjúkrahúslækna (FSL). Hið eldra skipulag frá sjötta áratug sl. aldar þar sem svæðafélög lækna voru grunnstoðir LÍ var lagt af.Fyrstu stjórn Félags sjúkrahúslækna sem kjörin var á stofnfundi þann 18. janúar 2018 skipa:

Formaður: 
María I. Gunnbjörnsdóttir, lungna- og ofnæmislæknir

Aðrir í stjórn: 
Hjörtur Friðrik Hjartarson, bæklunarskurðlæknir varaformaður
Ólafur Samúelsson, öldrunarlæknir gjaldkeri
Sunna Snædal Jónsdóttir, nýrnalæknir ritari
Ragnheiður Baldursdóttir, kvensjúkdóma- og fæðingalæknir meðstjórnandi

Í lögum félagsins segir að markmið þess séu eftirfarandi:
a) Að gæta faglegra og félagslegra hagsmuna félagsmanna.
b) Að vera samráðsaðili fyrir hönd félagsmanna varðandi gerð kjarasamninga.
c) Að vera vettvangur fyrir símenntun, rannsóknar- og gæðastarf félagsmanna.
d) Að efla framþróun í læknisfræði og heilbrigðisþjónustu.

Nýtt skipurit Læknafélags Íslands mun taka að fullu gildi á næsta aðalfundi þess haustið 2018. Með þessum skipulagsbreytingum LÍ er stefnt að því að efla stefnu- og kjaramálahlutverk aðildarfélaganna. Hlutverk LÍ sem fag- og fræðifélag allra lækna verður jafnframt eflt.