Evrópskir læknar vilja betri merkingar á áfenga drykki

 

Í fréttatilkynningu CPME (Evrópusamtök lækna) sem birtist fimmtudaginn 21. mars sl. skora samtökin á Evrópusambandið að afnema undanþágur sem áfengir drykkir njóta varðandi merkingar þannig að framvegis gildi sömu merkingarreglur um áfengi og nú gilda um matvæli og óáfenga drykki. CPME leggur til að ekki verði samþykktar tillögur áfengisframleiðenda um það að upplýsingar um áfenga drykki verði á heimasíðum þeirra í stað þess að vera á vörunni sjálfri.

CPME bendir á að samtök áfengisframleiðenda hafi nýlega opnað heimasíðuna www.responsibledrinking.eu þar sem birtar eru heilbrigðistengdar upplýsingar varðandi hvenær og hvernig eigi að drekka áfengi. Á heimasíðunni eru upplýsingar um hófdrykkju, drykkjuleiðbeiningar og leiðbeiningar um magn. Einnig er leitast við að svara því hvaða efni séu í áfengum drykkjum en það er gert með hætti sem forseti CPME dr. Frank Ulrich Montgomery prófessor telur ófullnægjandi og bendir á að upplýsingar um innhald áfengis eigi að birta á vörunni sjálfri.

Áfengisframleiðendur vilja að merkingar þeirra falli undir reglur sem snúa að landbúnaði í stað þess að falla undir reglugerð 1169/2011. Landbúnaðarnefnd Evrópuþingsins hefur lagt til að einungis kaloríumagn áfengra drykkja sé birt á vörunni en aðrar upplýsingar séu aðgengilegar á netinu. Formaður CPME áréttar að neytendur fari sjaldan á netið til að afla upplýsinga af þessu tagi og eigi rétt á því að fá samtímaupplýsingar um innhald drykkja sinna.

Fréttatilkynninguna í heild sinni má sjá hér. http://doc.cpme.eu/adopted/2019/PR.AL.20.03.2019.pdf