Endurskoðað stjórnskipulag við uppbyggingu Landspítala

Ábyrgð á öllum verkþáttum sem varða uppbyggingu nýs Landspítala verður á einni hendi samkvæmt drögum að nýju skipulagi sem heilbrigðisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa þróað. Markmiðið er að ná betri heildaryfirsýn yfir alla þætti verkefnisins þar sem í senn er horft til heildarskipulags, nýbygginga, nýtingar og aðlögunar eldri bygginga og rekstrar sjúkrahúss. Tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi ríkisstjórnar sl. föstudag.

Uppbygging húsnæðis Landspítalans við Hringbraut er stærsta beina fjárfestingarverkefni ríkisins frá upphafi. Lykilforsenda uppbyggingarinnar er sú að flutningur allrar meginstarfsemi Landspítala í nútímalega innviði á einn stað, feli í sér mikil tækifæri til að auka gæði, hagkvæmni og árangur þjónustunnar, ásamt því að bæta aðstæður starfsfólks. Mikilvægt er að stjórnun þessa umbreytingaverkefnis sé bæði heildstæð og markviss.

Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir fjárveitingum til uppbyggingar meðferðarkjarna, rannsóknahúss, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhúss, tengibrúa, bílakjallara við Sóleyjartorg, tækni- og stoðkerfa og þyrlupalls. Auk þessara þátta mun verkefnið einnig ná til uppbyggingar göngudeildarhúss, tengibygginga milli nýbygginga og eldri bygginga, viðhalds eldri bygginga, tækjakaupa auk ráðstöfunar og sölu þeirra bygginga sem spítalinn mun ekki hafa þörf fyrir þegar nýjar byggingar verða teknar í notkun.

Sjá frétt á vef stjórnarráðsins