Bráðalæknar vísa ábyrgð á mistökum á yfirstjórn og yfirvöld

„Það er algjörlega ljóst að á bráðadeild Landspítala er verið að stofna veikum og slösuðum sjúklingum í hættu með grafalvarlegri undirmönnun.“ Þetta segir í yfirlýsingu Félags bráðalækna frá aðalfundi þeirra.

Komi til alvarlegra atvika á bráðadeild sem rekja má til manneklu, ófullnægjandi starfsaðstöðu eða annarra tengdra þátta, vísum við allri ábyrgð á þeim atvikum til forstjóra Landspítala, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem æðsta yfirmanns heilbrigðismála, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Alþingis sem fer með fjárveitingarvald ríkisins.“

Yfirlýsingin hefur vakið mikla athygli. Hér er hún í heild sinni:

 

 

Yfirlýsing

Eins og Embætti landlæknis, heilbrigðisráðherra og framkvæmdastjórn Landspítala er fullkunnugt um hefur stefnt í óboðlegar og óviðunandi vinnuaðstæður á bráðadeild Landspítala í Fossvogi í sumar.

Nú þegar og í allt sumar næst ekki skilgreind neyðarmönnun bráðalækna eins og gert er ráð fyrir í verkfalli, þ.e. 7 vaktalínur. Í sumar verða að megninu til 5 vaktalínur, stundum færri. Atvinnurekendur okkar, Landspítali og íslenska ríkið, þvinga okkur og annað heilbrigðisstarfsfólk til vinnu við þessar óviðunandi aðstæður.

Bráðalæknar, eins og aðrir heilbrigiðsstarfsmenn, bera hag sjúklinga fyrir brjósti. Það er algjörlega ljóst að á bráðadeild Landspítala er verið að stofna veikum og slösuðum sjúklingum í hættu með grafalvarlegri undirmönnun. Líkur á alvarlegum atvikum og jafnvel mannslátum í sjúklingaþjónustu eru yfirgnæfandi. Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Lífi og heilsu landsmanna er stefnt í hættu.

Við krefjumst þess að landlæknir sinni sínu lögboðna eftirlitshlutverki af festu og knýi á um tafarlausar úrbætur af hálfu framkvæmdastjórnar og forstjóra Landspítala.

Komi til alvarlegra atvika á bráðadeild sem rekja má til manneklu, ófullnægjandi starfsaðstöðu eða annarra tengdra þátta, vísum við allri ábyrgð á þeim atvikum til forstjóra Landspítala, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem æðsta yfirmanns heilbrigðismála, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Alþingis sem fer með fjárveitingarvald ríkisins.

Samþykkt einróma á aðalfundi Félags bráðalækna.

 

  • Sjáðu viðtal við Berg Stefánsson, formann félagsins, á mbl.is
  • Sjáðu Mannlíf hér.
  • Sjáðu Vísi hér.