Bíðum eftir símtali úr ráðuneytinu

Reynir Arngrímsson læknir og formaður Læknafélags Íslands segist hafa gert alvarlegar athugasemdir við heilbrigðisstefnu stjórnvalda þegar hún var í smíðum.

„Því miður virðist fátt eða ekkert af þeim hafa ratað inn í þingsályktunartillöguna sem var samþykkt á Alþingi á dögunum. Í fyrsta lagi gerðum við athugasemd við hvernig staðið var að gerð áætlunarinnar. Þetta var fyrst og fremst samtal ráðuneytisins við forstjóra heilbrigðisstofnana á landinu. Það var ekkert samráð haft við fagfélög starfsmanna í heilbrigðiskerfinu, ekkert samband við félög heilbrigðisfyrirtækja eða allan þann hóp sem vinnur sjálfstætt að heilbrigðisþjónustu. Þetta fannst okkur mjög sérkennileg vinnubrögð,“ segir Reynir. 
„Það voru haldnir kynningarfundir af hálfu ráðuneytisins og óskað eftir athugasemdum sem við tókum mjög alvarlega. Við unnum hér í stórum vinnuhópum í læknafélaginu á síðasta aðalfundi og voru hátt í sjötíu læknar sem settust yfir skýrsluna. Við sáum margt jákvætt í henni og töldum mikilvægt að það væri mótuð heilbrigðisstefna. En það vantaði mjög margt í stefnuna sem við bentum á. Það var eins og allt það starfsfólk sem vinnur sjálfstætt hafi gleymst. Ég get nefnt SÁÁ. Hver er heilbrigðisstefnan varðandi samskipti við SÁÁ og meðferð á fíknisjúkdómum til dæmis? Reykjalundur er annað dæmi, einnig heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar, sjálfstætt starfandi sálfræðingar og sjálfstætt starfandi læknar. Það var bara eins og allt þetta fólk væri ekki til.“

Sjá frétt á mbl.is