Ávarp formanns LÍ við setningu Læknadaga

Háttvirtur forseti, háttvirtur heilbrigðisráðherra, góðir gestir

Að stunda læknisfræði eru gríðarleg forréttindi. Fræðin eru óþrjótandi uppspretta töfra og innblásturs og læknavísindunum fleygir fram sem aldrei fyrr, eins og við munum svo sannarlega verða vitni að á komandi Læknadögum. Í daglegu amstri, baráttu við óskilvirk tölvukerfi, biðlista, skort á legurýmum, skort á tíma fyrir sjúklingana, óttanum við að verða völd að óhappi vegna skorts á yfirsýn yfir allt of mörg verkefni er samt auðvelt að gleyma töfrunum. Gleyma því að það er gaman og gefandi að vera læknir, að lækningar eru listgrein og þær eru skapandi. Læknislistin er ekki fyrirbæri sem hægt er að njörva niður í stífa ramma og einfaldaðar lausnir þar sem eitt hentar öllum. Ekkert kemur í staðinn fyrir menntun, reynslu og innsæi læknisins sjálfs þegar kemur að því að lækna og líkna sjúkum og þar verður hann að fá að njóta sín og vera við stjórnvölinn. Ég tók þátt í nýafstöðnu lyflæknaþingi s.l. nóvember þar sem tveir bandarískir læknar Dr. Manesh og Dr. Geha, sem getið hafa sér gott orð alþjóðlega fyrir einstaka kennsluhæfileika og færni í greiningu sjúkdóma, fóru í gegnum flókið tilfelli sem þeir höfðu aldrei séð áður fyrir fullum sal áhorfenda. Þarna voru sannir listamenn á ferð sem framkölluðu faglega alsælu hjá áhorfendum með því að minna okkur á hjartað og sálina í okkar starfi – þeir voru óþrjótandi brunnur fróðleiks og áhuga á viðfangsefninu og enduðu með því að leysa þetta flókna tilfelli með glæsibrag undir dynjandi lófataki viðstaddra. Þetta minnti mig á af hverju ég ákvað að verða læknir og af hverju ég hef lagt á mig þessa löngu og krefjandi vegferð. Og á sama tíma helltist yfir mig sorg yfir því hversu sjaldan ég fæ þessa tilfinningu núorðið, hversu daglegt puð í kerfi sem vinnur allt of oft ekki með okkur dregur úr gleðinni og starfsþróttinum.

Ýmsir hafa lýst yfir áhyggjum af dvínandi starfsgleði og hratt vaxandi tíðni kulnunar meðal lækna og annarra heilbrigðisstétta. Kári Stefánsson steig fram í byrjun janúar og lýsti því yfir að lélegur andi væri aðalvandamál Landspítalans. En hvernig verður lélegur andi til? Hann sprettur klárlega ekki fram í tómarúmi. Læknafélag Massachusetts fylkis í Bandaríkjunum, ásamt samtökum sjúkrahúsa í Massachusetts og Lýðheilsuskóla Harvard háskóla lýstu því yfir árið 2019 að kulnun lækna væri lýðheilsulegt neyðarástand, eða „public health crisis“. Og takið eftir að þetta var áður en faraldur Covid-19 skall á þessum hópi af gríðarlegum þunga. Félagar okkar í Massachusetts taka einnig fram að hratt vaxandi tíðni kulnunar sé á engan hátt tengd dvínandi vinnusemi, krafti eða elju yngri kynslóða lækna heldur liggur vandinn í

því að starfsumhverfi þeirra býður upp á síendurtekinn siðferðilegan skaða. Skaða sem á endanum leiðir til sömu einkenna og kulnun. En hvað er átt við með siðferðilegum skaða? Siðferðilegur skaði í lækningum á sér stað þegar menntun og gildi lækna og álit þeirra á því hvað væri sjúklingnum fyrir bestu rekst sífellt á við kerfi sem gerir læknum ekki kleift að veita bestu mögulegu þjónustu. Sem dæmi um þetta má nefna skurðlækni sem kemur sárþjáðum sjúklingum ekki í aðgerð mánuðum, eða jafnvel árum saman, vitandi hversu gríðarlegum skaða það veldur. Eða lækni sem þarf að leggja háaldaraðan sjúkling með óráð inn í gluggalaust fjölbýli á bráðamóttöku þar sem ekkert næði eða hvíld er að fá og geyma sjúklinginn þar jafnvel sólarhringum saman. Það er þessi tilfinning að bera ábyrgð án þess að hafa nokkur völd. Sjálfræði í veitingu þjónustu er gríðarlega mikilvægt fyrir lækna og forsenda starfsgleði. Í stað þess að færa okkur í þá átt höfum við þvert á móti farið lengra og lengra í átt að miðstýringu og stífu regluverki um störf lækna, hindrunum, svipum og gulrótum, og hratt vaxandi skráningarskyldu á öllu mögulegu og ómögulegu, oft án sýnilegs tilgangs eða ávinnings fyrir sjúklingana. Það skyldi engan furða að starfsandi sé ekki upp á sitt besta og starfsgleði fari dvínandi. Læknar sem upplifa einkenni kulnunar þjást ekki eingöngu persónulega heldur hafa slík einkenni neikvæð áhrif á framleiðni, gera það að verkum að fólk minnkar við sig starfshlutfall eða hættir jafnvel alveg og eykur líkur á samskiptaörðugleikum og alvarlegum atvikum. Það er því til gríðarlega mikils að vinna að snúa þessari afar alvarlegu og hættulegu þróun við. Hópurinn frá Massachusetts lagði til þrenns slags aðgerðir til að mæta vandanum. Án tafar þurfi að bæta aðgengi lækna að stuðningi fagaðila í geðheilbrigðisþjónustu – sem auðvitað miðast bara að því að slá á einkennin en ekki ráðast að rót vandans sjálfs. Síðan er áhugavert að næsta aðgerð sem þau leggja til snýr að öllu leyti að því að bæta rafrænt starfsumhverfi lækna, lagfæra úrelt og þunglamaleg sjúkraskrárkerfi og vera þar í miklu og þéttu samstarfi við læknana sjálfa, notendur kerfanna, um úrbæturnar, minnka kröfur um skráningu og gera skráninguna markvissari. Þessu hefur Læknafélag Íslands ítrekað talað fyrir og hefur félagið nú stofnað nefnd um rafræna sjúkraskrá sem tekur til starfa á næstu vikum. Félagið vill með þessu setja fram stefnu og áherslur okkar lækna í þessum málaflokki og býst við góðri samvinnu við stjórnvöld um úrbætur sem allra fyrst. Að lokum bendir bandaríski hópurinn á að heilbrigðisstofnanir þurfi að ráða framkvæmdastjóra vellíðunar starfsfólks til að tryggja kulnunarvarnir til framtíðar. Að mínu mati væri hins vegar það allra mikilvægasta að tryggja sjálfræði lækna, aðkomu að stefnumótun og koma okkur úr þeirri stöðu að bera ábyrgð án

áhrifa. Með þeim hætti mætti blása nýju lífi í stolt okkar gagnvart störfum okkar og gagnvart stofnununum sem við vinnum fyrir – en stolt, og upplifunin að þekking manns sé metin að verðleikum og að á mann sé hlustað, er hornsteinn starfsgleði hjá þekkingarstarfsmönnum, sem læknar svo sannarlega eru.

En svo er starfsþróun og símenntun, með Læknadaga í broddi fylkingar, líka kulnunarvörn. Þessi árlega uppskeruhátíð stéttarinnar minnir okkur á gleðina og töfrana í starfinu og fræðunum og gefur okkur tækifæri til að umgangast þann ótrúlega verðmæta og samheldna hóp kollega sem við tilheyrum. Dagskráin í ár er vegleg sem aldrei fyrr og greinilegt að við munum margoft þurfa að taka erfiðar ákvarðanir þegar gera þarf upp á milli mismunandi málþinga. Þótt mig klæi í fingurna mun ég ekki ná að tíunda allt það áhugaverða sem framundan er. Mig langar þó að minnast sérstaklega á að í ár eru tvö málþing helguð umhverfismálum og er stefnt að stofnun samtaka lækna um umhverfisvá í kjölfar þess síðara seinni partinn á föstudaginn. Stofnun samtaka lækna sem beita sér á þessum vettvangi er mjög tímabær, enda um stærstu áskorun samtímans að ræða, áskorun sem hefur marga snertifleti við störf okkar sem lækna. Árið 2009 gáfu Alþjóðasamtök lækna frá sér yfirlýsingu um heilsu og loftslagsbreytingar, kennda við Dehli á Indlandi, sem uppfærð var á fundi samtakanna í Chicago árið 2017. Í yfirlýsingunni er gerð krafa um að landsfélög lækna hvetji til þess að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við heilbrigðisþjónustu, móti aðgerðaáætlanir um viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar við hamförum af völdum loftslagsbreytinga og kynni sér sérstaklega afleiðingar loftslagsbreytinga á heilsufar fólks. Einnig að læknar séu færir um að greina og meðhöndla þessar afleiðingar þegar þær birtast hjá sjúklingum og hvetji til þróunar nýrra lyfja til að berjast gegn nýjum sýkingarvöldum sem óhjákvæmilega verða afleiðing loftslagsbreytinga. Læknafélagið hlakkar til samstarfs við samtök lækna um umhverfisvá ef af stofnun þeirra verður síðar í vikunni og mun að sjálfsögðu vinna með og styðja samtökin í framtíðinni eins og þau óska. Í ár verða líka aftur á dagskrá málþing opin almenningi, en Covid faraldurinn hefur komið í veg fyrir þau undanfarin ár. Annað þeirra er helgað breytingaskeiðinu, málefni sem er mjög ofarlega á baugi í almennri umræðu og nýtur nú loks þeirrar athygli sem það sannarlega á skilið – enda er rétt greining og meðhöndlun einkenna í tengslum við tíðahvörf gríðarlegt lífsgæðaspursmál. Hitt ber titilinn „nammibar með nikótíni“ þar sem annað brýnt málefni, notkun barna og ungmenna á nikótínvörum og markaðssetning nikótíns sem sérstaklega er

miðuð að þeim hópi, verður rætt og reifað. Læknafélagið stendur sjálft fyrir skipulagningu þriggja málþinga, þar af tveggja sem eru á dagskrá eftir klukkan fjögur og eru opin öllum læknum, málþing um gerð starfsáætlana lækna – verkefni sem er farið af stað á vegum Landspítala – og málþing um kjaramál í aðdraganda komandi kjaraviðræðna. Þriðja málþingið er um hið svo kallaða „vottorðafargan“ en heitar umræður hafa spunnist meðal lækna á undanförnum misserum um regluverk í kringum vottorðagerð, eða skort þar á.

Kæru læknar og aðrir háttvirtir gestir. Í ár fagnar Læknafélag Íslands 105 ára afmæli, en það var stofnað 14. janúar 1918. Þótt félagið okkar sé svo sannarlega öflugt stéttarfélag, og hafi verið frá upphafi, er það ekki síður metnaðarfullt fagfélag og skal sá þáttur starfsemi þess aldrei vera vanræktur eða vanmetinn. Við stofnun félagsins var skráð í lög þess að tilgangur félagsins væri að efla hag og sóma íslenskrar læknastéttar, samvinnu meðal lækna í heilbrigðismálum þjóðarinnar og glæða áhuga lækna fyrir öllu því er að starfi þeirra lýtur. Þessi orð eiga ekki síður við í dag en fyrir 105 árum og kappkostar félagið að þjóna þessum tilgangi sínum sem best, m.a. með skipulagningu árlegra Læknadaga. Læknar standa sem fyrr vörð um hag sjúklinga og hag íslensks heilbrigðiskerfis og megum við ekkert gefa eftir í þeim efnum. Almenningur ber ríkt traust til lækna og ber virðingu fyrir störfum okkar, en við verðum að vera auðmjúk gagnvart traustinu og virðingunni enda hvorugt sjálfgefið. Við megum aldrei gleyma tilgangi okkar og tilgangi Læknafélags Íslands.

Læknadagar væru ekki mögulegir án gríðarlega ötuls og óeigingjarns starfs allra þeirra fjölmörgu aðila sem koma að skipulagningu ráðstefnunnar. Þar vil ég fyrsta nefna Margréti Aðalsteinsdóttur, sérfræðing Læknafélagsins í Læknadögum, sem hefur stýrt undirbúningi Læknadaga af miklum myndarskap í fjölda ára og kunnum við henni ævarandi þakkir fyrir hennar ómetanlega framlag. Ég vil einnig þakka stjórn Fræðslustofnunar, með Kristínu Sigurðardóttur í fararbroddi, fyrir algjörlega frábæra vinnu, fagmennsku, metnað, kraft og hugmyndaauðgi. Eins vil ég þakka þeim læknum sem hafa lagt sitt af mörkum til að dagskráin yrði sem allra glæsilegust, starfsfólki Læknafélags Íslands, starfsfólki Iceland travel, styrktaraðilum, sýnendum, skipuleggjendum og tæknifólki í Hörpu og öllum þeim góðu gestum sem munu njóta hátíðarinnar næstu vikuna. Allir hafa lagt sitt af mörkum til að úr verði hátíðin sem við þekkjum og bíðum eftir með eftirvæntingu í byrjun hvers árs. Megið þið eiga sem ánægjulegasta Læknadaga!