Ályktun stjórnar LÍ um stöðu sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa

Á fundi stjórnar Læknafélags Íslands (LÍ) 4. júní 2018 var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Stjórn Læknafélags Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Ein af meginstoðum þjónustunnar er samningur Læknafélags Reykjavíkur (LR) við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ), en á honum byggist heilbrigðisþjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðilækna við sjúklinga. Slíkan samning má rekja allt aftur til ársins 1909 við stofnun fyrsta sjúkrasamlags landsins.

Að fyrirmælum heilbrigðisráðuneytisins hafa skýr ákvæði gildandi samnings LR og SÍ um nýliðun sérfræðilækna ekki verið virt. Afleiðingar þess eru þær að læknum í ýmsum sérgreinum hefur fækkað sem getur leitt til skorts á sérhæfðri þjónustu við langveika sjúklinga, töf á greiningum alvarlegra sjúkdóma, óviðunandi eftirfylgni á meðferð og skorts á meðferðarúrræðum. Þetta er skerðing sem bitnar fyrst og fremst á sjúklingum og öryggi þeirra en einnig á atvinnufrelsi lækna. Slíkar aðgerðir hafa ákveðinn fælingarmátt og letja íslenska lækna frá því að koma til Íslands að afloknu löngu sérfræðinámi, sem aftur bíður heim hættu á stöðnun í heilbrigðisþjónustunni. Virk endurnýjun í læknastétt og aðgengi að nægjanlegum fjölda sérfræðilækna hérlendis á öllum sviðum læknisfræðinnar er þjóðaröryggismál.

Í 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 er skýrt tekið fram að markmið laganna sé að tryggja að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Í lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 er þess einnig getið að markmið þeirra sé að að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Ljóst er að með þessum fyrirmælum heilbrigðisráðuneytisins eru hagsmunir ákveðinna hópa sjúkratryggðra fyrir borð bornir. Aðrir þjónustuaðilar eru ekki í stakk búnir til að taka við og veita þessa þjónustu í dag.

SÍ og ráðuneytið hafa hafnað umsóknum sérfræðilækna á sviði barnageðlækninga, taugalækninga, gigtlækninga, hjartalækninga, húðlækninga, öldrunarlækninga og augnlækninga svo dæmi séu tekin. Aðgerðum ráðuneytisins má því að öllum líkindum jafna við brot á þessum grundvallar mannréttindum landsmanna, þar sem í mörgum þessara sérgreina læknisfræðinnar er viðurkenndur langvarandi skortur á aðgengi að læknisþjónustu og langir biðlistar eftir greiningu og meðferð hafa myndast. Á sama tíma eru engar skorður settar við samninga annarra heilbrigðisstétta og SÍ.

Rök heilbrigðisráðuneytisins eru að mati stjórnar LÍ ekki byggð á faglegum grunni eða vegna offramboðs á ákveðinni þjónustu heldur þau að fjármagn skorti til að uppfylla samninginn og hann hafi farið fram úr áætluðum fjárheimildum. Stjórn LÍ gerir alvarlega athugasemdi við þessa nálgun og þennan málflutning.

Í fyrsta lagi hefur á öllum sviðum heilbrigðiskerfisins verið vaxandi eftirspurn m.a. vegna lýðfræðilegra breytinga þjóðarinnar, alþjóðlegrar tækniþróunar og framfara í læknisfræði og auknum kröfum almennings um góða og aðgengilega sérfræðilæknisþjónustu.

Í öðru lagi má benda á að hlutfall fjárlaga til heilbrigðismála af vergri landsframleiðslu (VLF) er lægra hér á landi en í flestum nágranna- og viðmiðunarlöndum. Heildarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi árið 2016 reyndust 8,6% af VLF en í Noregi 10,5% og Svíþjóð 11%. Tugþúsundir Íslendinga hafa krafist þess að framlag til heilbrigðismála verði aukið. Á Íslandi er fjármögnun heilbrigðiskerfisins í heild einfaldlega ófullnægjandi og á það við önnur svið líka en sérhæfða læknisþjónustu utan sjúkrahúsa, allt frá frumheilsugæslu til hátækni úrræða sem m.a. sést í stöðugum og vaxandi vanda í mannauðsmálum heilbrigðisstofnanna um allt land. 

Stjórn LÍ lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þess trúnaðarbrest sem orðið hefur milli heilbrigðisyfirvalda og lækna á Íslandi með þessum skýru og fordæmalausu brotum á umsömdum ákvæðum og skilgreindum verkferlum í samningi LR og SÍ. Stjórn LÍ hvetur heilbrigðisráðherra til að standa við skuldbindingar og samninga ríkisins. Án slíkra samninga um sérhæfða heilbrigðisþjónustu er hætta á að á Íslandi þróist tvöfalt heilbrigðiskerfi, þekking og þjónustustig dali og upp komi viðvarandi læknaskortur á mikilvægum sviðum nútíma læknisfræði.

Stjórn LÍ kallar eftir skýrri og heildstæðri stefnu frá yfirvöldum varðandi heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og lýsir sig reiðubúna til að vinna að uppbyggingu heilbrigðiskerfis þar sem trúnaður, traust og virðing ríkir milli þeirra sem veita heilbrigðisþjónustuna, heilbrigðisstarfsfólks sem velur sér þennan starfsvettvang og æðstu stjórnar heilbrigðis- og landsmála.