Ályktun stjórnar LÍ um eflingu heilsugæsluþjónustu

Á stjórnarfundi 7. febrúar 2022 samþykkti stjórn Læknafélags Íslands eftirfarandi ályktun:

Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) skorar á stjórnvöld að standa við þau fyrirheit að efla heilsugæsluna. Fjármögnun heilsugæsluþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu árin 2019-2022 hefur engan veginn fylgt auknum verkefnum, auknum fjölda samskipta, auknum fjölda skjólstæðinga og launaþróun.

Helsta aukningin undanfarin ár hefur verið í fjármögnun sérverkefna, t.d. leghálsskimana og geðheilsuteyma, en fjármögnun grunnþjónustu í heilsugæslu hefur setið eftir. Samhliða þessu hafa komugjöld verið lækkuð og lítur út fyrir að sá kostnaður hafi verið látinn falla á þjónustuaðilana. Skortur er á heimilislæknum og Ísland er eftirbátur nágrannaþjóða í uppbyggingu grunnheilsugæslu. LÍ er tilbúið að leggja fram tölulegar upplýsingar, máli félagsins til stuðnings.

Stjórn LÍ skorar á stjórnvöld að standa við gefin loforð um eflingu þessarar þjónustu, þar sem slíkt er ekki sjáanlegt í þróun fjármögnunar. Að telja almenningi trú um að verið sé að efla ákveðna þjónustu þegar slíkt stenst ekki nánari skoðun er ekki ásættanlegt að mati félagsins.