Ályktanir aðalfundar LÍ 2023

Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) 2022 var haldinn í Kópavogi 14. október sl. Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson ávarpaði aðalfundargesti og svaraði fjölmörgum fyrirspurnum. Kjörnir aðalfundarfulltrúar voru 78.

Í stjórn LÍ starfsárið 2022-2023 verða: Steinunn Þórðardóttir, formaður, Sólveig Bjarnadóttir og Þórdís Þorkelsdóttir frá Félagi almennra lækna, Margrét Ólafía Tómasdóttir og Oddur Steinarsson frá Félagi ísl. heimilislækna, Magdalena Ásgeirsdóttir og Theódór Skúli Sigurðsson frá Félagi sjúkrahúslækna og Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ragnar Freyr Ingvarsson frá Læknafélagi Reykjavíkur. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Á aðalfundinum var samþykkt ákall til ríkisstjórnar Íslands  vegna ríkjandi neyðarástands í heilbrigðiskerfinu. Í ákallinu kemur fram að núverandi ástand sé óboðlegt og hættulegt. LÍ krefst þess að tafarlaust verði ráðist í aðgerðir til að tryggja bestu mögulega heilsu og öryggi sjúklinga, persónuvernd þeirra og mannlega reisn. LÍ lýsir sig reiðubúið til samstarfs, eins og alltaf um aðgerðir til lausnar.

Einnig samþykkti aðalfundurinn eina áskorun og sjö ályktanir um margvísleg málefni sem snerta heilbrigðismál.

Í áskorun til heilbrigðisráðherra er því beint til ráðherrans að sjá til þess að læknisfræðileg starfsendurhæfing sé tryggð og efld. Hún sé nauðsynlegur hluti læknisfræðilegrar endurhæfingar og veitt þeim sem atvinnutengd starfsendurhæfing geti ekki þjónað. Starfsemin hafi verið á Reykjalundi, sú eina sinnar tegundar hér á landi, en heilbrigðisyfirvöld hafi nú sagt upp þjónustusamningnum við Reykjalund um læknisfræðilega starfsendurhæfingu.

Ályktun um samninga við sjálfstætt starfandi lækna skorar á yfirvöld að ganga til samninga við sjálfsætt starfandi sérgreinalækna með raunveruleg áform um að bæta og efla þjónustu við sjúkratryggða landsmenn.

Ályktun um heilbrigðismál skorar á stjórnvöld að hlíta þjóðarvilja og auka framlög til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Einnig skorar LÍ á stjórnvöld að fara að lögum um heilbrigðisþjónustu og tryggja öllum landsmönnum aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita, óháð efnahag og án óeðlilegrar tafar. Svo það markmið náist þurfi að nýta til fulls styrkleika og hagkvæmni ólíkra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu.

Ályktun um aðgerðir til að draga úr veikindafjarvistum skorar á á stjórnvöld að ráðast í markvissar aðgerðir vegna vísbendinga um aukinn heilsubrest lækna og vaxandi brotthvarf þeirra af vinnumarkaði. Vísað er til niðurstöðu heilsufarskannanna heilbrigðisstétta og að opinberar tölur seinustu ára sýni auknar veikindafjarvistir lækna ásamt umtalsverðri fjölgun umsókna í starfsendurhæfingar- og veikindasjóð. Mikilvægt sé að sporna við þessari óheillaþróun og draga úr álagi, s.s. með auknum stuðningsúrræðum, úrbótum á starfsumhverfi, fjölgun stöðugilda og styttingu vinnuvikunnar. Starfslýsing þurfi að liggja fyrir í ráðningarsamningi og hún þurfi að endurspegla raunhæft umfang verkefna lækna sem og að hámarksfjöldi sjúklinga í umsjón hvers læknis sé skilgreindur.

Ályktun um fjárlagafrumvarpið 2023 lýsir yfir vonbrigðum aðalfundarins með frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023. Það vanti fjármögnun raunverulegra breytinga eða nýjunga til þess að mæta þeim vandamálum sem heilbrigðisþjónustan á Íslandi standi frammi fyrir nú og næstu árin. Alvöru átak þurfi til að mæta uppsöfnuðum vanda í kerfinu og þeim áskorunum sem staðið sé frammi fyrir með hratt vaxandi fjölda aldraðra. Hugsa þurfi áherslur upp á nýtt, breyta mörgu, endurskipuleggja einingar og koma með nýjungar til að mæta brýnni þjónustuþörf. Ef haldið verði áfram að óbreyttu er hætta á að þjónustan versni áfram og að tvöfalt heilbrigðiskerfi nái að þróast enn frekar.

Ályktun um öryggi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna skorar á allar heilbrigðisstofnanir að tryggja öryggi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna við störf þeirra. Reynslan sýni að vankantar séu þar á og að LÍ sé kunnugt um alvarlegar árásir á lækna við störf þeirra. Mikilvægt sé að vinna eftir samræmdu verklagi til að fyrirbyggja og bregðast við öryggisógn gegn heilbrigðisstarfsfólki.

Ályktun um heimilislækningar í dreifbýli minnir á að stöðugleiki í mönnun heilsugæslunnar sé nauðsynlegur svo hún geti staðið undir margþættu og mikilvægu hlutverki sínu. Mikill skortur sé á fastráðnum læknum í dreifbýli og ekki horfur á að batni nema með öflugum aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Skorað er á ríkisstjórn Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytið að bæta skilyrði fyrir stöðugleika í mönnun lækna í dreifbýli og vinna þannig að því að tryggja öllum landsmönnum sinn heimilislækni.

Ályktun um sjúkraskrárkerfi skorar á heilbrigðisráðherra að gera sjúkraskrár aðgengilegar öllum þjónustuveitendum í einum miðlægum óháðum gagnagrunni. Slíkur ráðahagur myndi auka öryggi sjúklinga, bæta vinnuumhverfi lækna og minnka sóun.